Handbolti

Guðjón Valur og Alexander tilnefndir í stjörnuliðið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðjón Valur Sigurðsson.
Guðjón Valur Sigurðsson. Nordic Photos / Getty Images
Á mánudag hefst kosning fyrir stjörnuleik þýsku úrvalsdeildarinnar og eru minnst tveir íslenskir leikmenn meðal þeirra tilnefndu.

Reyndar er aðeins búinn að tilkynna þá sem koma til greina í fjórum flokkum - vinstri hornamenn, vinstri skyttur, leikstjórnendur og hægri skyttur. Enn á eftir að tilnefna þjálfara sem og markverði, línumenn og hægri hornamenn.

Guðjón Valur Sigurðsson er einn sex leikmanna sem eru tilnefndir í flokki vinstri hornamanna og Alexander Petersson, leikmaður Rhein-Neckar Löwen, í flokki hægri skyttna.

Guðjón Valur leikur með Kiel en Stefan Kretzschmar, fyrrum landsliðsmaður Þjóðverja, lofaði hann mjög í samantektarmyndbandi um þá tilnefndu sem má sjá hér fyrir ofan.

„Sigurðsson hefur spilað í hæsta klassa í mörg ár. Hann er leikmaður í heimsklassa sem hefur ekki aðeins spilað vel einstaka tímabil heldur í fjöldamörg ár."

„Ég tel að það sé ekki til betri fagmaður í handbolta en hann. Allt sem hann gerir tekur mið af handboltanum. Hann er þess fyrir utan mjög viðkunnalegur maður sem maður vildi gjarnan vera með í sínu liði," sagði Kretzschmar.

Torsten Jansen, leikmaður þýska landsliðsins, segir sitt álit á þeim sem eru tilnefndir í stöðu hægri skyttna.

„Alex er í mínum huga fullgerður leikmaður, bæði í sókn og vörn. Það er alltaf mjög óþægilegt að spila gegn honum, af því að hann getur skorað mörk þegar flestir telja að það sé ekki hægt lengur. Ég tel hann sigurstranglegastan í þessum flokki," sagði Jansen.

Nánari upplýsingar um kjörið má finna hér en stjörnuliðið mætir þýska landsliðinu í febrúar næstkomandi. Tveir stigahæstu leikmennirnir úr hverri stöðu verða í stjörnuliðinu. Tveir þjálfarar munu stýra liðinu - sá sem hlýtur flest atkvæði í kjörinu og annar sem þjálfarar úrvalsdeildarliðanna átján tilnefna. Þjálfararnir geta svo valið þriðja leikmanninn í hverri stöðu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×