Viðskipti erlent

Segja SAS aðeins nokkrum vikum frá gjaldþroti

Danskir fjölmiðlar greina frá því í morgun að í raun sé SAS flugfélagið aðeins nokkrum vikum frá því að verða gjaldþrota. Áður hefur komið fram í fréttum að ríkisstjórnir Danmerkur, Svíþjóðar og Noregs séu farnar að undirbúa sig undir gjaldþrot SAS.

Í frétt í Politiken segir að SAS hafi ekki lausafé til að halda rekstri sínum gangandi nema fram að áramótum. Forráðamenn SAS hafa hinsvegar sagt að félagið geti haldið rekstrinum áfram fram á næsta sumar þótt boðaðar sparnaðaráæltanir félagsins verði ekki samþykktar.

Politiken segir að neyðaráætlun sé til staðar hjá SAS um hvernig bruðgist verði við gjaldþroti félagsins. Þá hafa borist fréttir af því að stórar ferðaskrifstofur séu einnig að undirbúa sig fyrir það að allt fari á versta veg hjá SAS.

Sem stendur eru litlar líkur til þess að verkalýðsfélög starfsmanna hjá SAS muni sætta sig við launalækkanir þær sem boðaðar eru í fyrrgreindri sparnaðaráætlun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×