Handbolti

Ágúst: Þolinmæði og aga þurfti til þess að klára leikinn

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Stella Sigurðardóttir var markahæst í íslenska liðinu í gær.fréttablaðið/pjetur
Stella Sigurðardóttir var markahæst í íslenska liðinu í gær.fréttablaðið/pjetur
Eftir tvö töp í fyrstu tveimur leikjum riðlakeppninnar kom að því að stelpurnar okkar fögnuðu sigri. Þær unnu sannfærandi sjö marka sigur, 19-26, á Sviss en það tók liðið samt drjúgan tíma að hrista svissneska liðið af sér.

„Þetta var hrikalega erfitt. Það þarf mikla þolinmæði og aga til þess að leggja þetta lið. Við vorum á erfiðum útivelli, 1.700 manns í stúkunni og flott stemning," sagði hálfraddlaus þjálfari Íslands, Ágúst Þór Jóhannsson, við Fréttablaðið eftir leikinn.

„Ég var mjög ánægður með leik liðsins. Mér fannst við spila mjög vel. Varnarleikurinn var sérstaklega góður í síðari hálfleik og sóknarleikurinn var heilt yfir allan leikinn mjög góður hjá okkur."

Ágúst segir að margir hafi viljað gera lítið úr þessu liði Sviss en hann hafi alltaf tekið það alvarlega. „Þetta er gott lið. Það spila fjórir leikmenn í þessu liði í þýsku úrvalsdeildinni."

Liðin mætast að nýju í Vodafone-höllinni og þar vill Ágúst sjá almennilegan stuðning.

„Uppleggið í þeim leik verður svipað hjá okkur og við munum ekki sofa á verðinum. Stuðningurinn á heimavelli er okkur samt gríðarlega mikilvægur. Stelpurnar eiga skilið að fá fulla Vodafone-höll á sunnudag. Það hafa oft verið 700-800 manns en ég vil sjá fullt hús og mikla stemningu hjá áhorfendum í leiknum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×