Handbolti

Guðmundur um meiðsli Alexanders: Einföld aðgerð á öxlinni myndi bjarga ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alexander Petersson missir af forkeppni Ólympíuleikanna í Króatíu.
Alexander Petersson missir af forkeppni Ólympíuleikanna í Króatíu. Fréttablaðið/Vilhelm
Alexander Petersson gefur ekki kost á sér í forkeppni Ólympíuleikanna vegna meiðsla á öxl en hann hefur engu að síður verið að spila með Füchse Berlin. Guðmundur Guðmundsson, landsliðsþjálfari, var spurður út í mál Alexanders á blaðamannafundi í gær.

Það má segja að þrír aðilar séu að togast þarna á. Alexander að klára sitt síðasta tímabil með Füchse Berlin, hann fer til Rhein Neckar Löwen í sumar og þá eru Ólympíuleikarnir fram undan takist íslenska landsliðinu að komast til London. Það besta fyrir íslenska landsliðið væri að Alexander færi strax í aðgerð en málið er ekki einfalt.

„Það hefur engin ákvörðun verið tekin um aðgerð enda ráðum við því ekki. Hann verður að ákveða það sjálfur hvort hann vill slíka aðgerð eða ekki. Það er ekkert í kortunum eins og staðan er í dag að hann sé á leiðinni í aðgerð," sagði Guðmundur í gær.

„Það sýnist sitt hverjum hvað á að gera og hvenær eigi að gera það. Það hafa allir aðilar sem að því máli koma á einn eða annan hátt sína skoðun á því. Ég efast um að Berlín vilji hleypa honum í aðgerð núna og svo framvegis. Það togast ýmislegt á í þessu máli. Við hlustum bara á þá lækna sem hafa skoðað myndir af þessu og þeir meta þetta á sinn hátt á Íslandi en síðan eru aðrir læknar í Þýskalandi sem hafa aðra skoðun. Ég veit ekki einu sinni hvernig þetta endar."

„Ef okkur tekst að komast inn á Ólympíuleikana þá er hann að sjálfsögðu gríðarlega mikilvægur leikmaður í okkar liði. Það er enginn vafi á því að landsliðið vill njóta krafta hans," sagði Guðmundur en til þess að hann nái Ólympíuleikunum þá þarf hann að fara tímanlega í aðgerð.

„Eftir því sem læknar landsliðsins segja þá telja þeir að það sé hægt að framkvæma á honum tiltölulega einfalda aðgerð sem kemur honum í lag á sex til átta vikum. Hún á að koma í veg fyrir að þetta fari enn verr. Það er möguleiki á því að hann nái Ólympíuleikunum ef menn fara nógu snemma í það mál," sagði Guðmundur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×