Handbolti

Unnið að kveðjuleik fyrir Óla Stef

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ólafur Stefánsson
Ólafur Stefánsson Mynd/Anton
„Sú vinna hefur verið í gangi síðan í desember," segir Einar Þorvarðarson framkvæmdastjóri Handknattleikssambands Íslands um kveðjuleik fyrir Ólaf Stefánsson.

Töluverð umræða hefur spunnist um mögulegan kveðjuleik í kjölfar pistils sem Víðir Sigurðsson, íþróttafréttamaður á Morgunblaðinu, ritaði í dag. Þar stingur Víðir uppá því að Ólafur verði kvaddur með virtum þegar Íslendingar mæta Rúmenum í Laugardalshöll 16. júní í lokaleik riðilsins í undankeppni EM.

„Það breytast forsendur á milli leikja. Það breyttist eitthvað í gær. Það eru ákveðnar útgáfur af þessu sem við erum að velta fyrir okkur," segir Einar og vill ekki fara nákvæmlega út í hugmyndavinnuna sem stendur yfir hjá HSÍ.

Einar játar því að vangavelturnar snúist um það hvort setja eigi upp sérstakan kveðjuleik eða kveðja eigi Ólaf í keppnisleik.

Sigur á útivelli gegn Hvít-Rússum 12. júní myndi tryggja Íslendingum efsta sæti riðilsins í undankeppni EM. Því væri tækifæri til þess að bregða útaf vananum og kalla inn Ólaf sem hefur lagt landsliðsskóna á hilluna.

Einar er þó þögull sem gröfin varðandi hvenær niðurstöðu sé að vænta.

„Þegar við erum búnir að ná utan um það sem við erum að gera. Næst eru þessir leikir gegn Hvít-Rússum úti og Rúmenum heima. Þegar við höfum áttað okkur á stöðunni á þessu getum við farið að ræða þetta eitthvað," segir Einar.


Tengdar fréttir

Ísland á EM eftir frábæran sigur

Ísland tryggði sér sæti á EM í Danmörku á næsta ári með hreint stórkostlegum sigri á sterku liði Slóvena, 35-34, í Laugardalshöllinni í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×