Viðskipti erlent

Grikkir segja upp 15.000 opinberum starfsmönnum

Gríska þingið samþykkti í gærdag lög sem gera stjórnvöldum þar í landi kleyft að segja upp 15.000 opinberum starfsmönnum fyrir árslok árið 2014.

Í frétt um málið á CNNMoney segir að þetta hafi verið skilyrði þess að Grikkir fengu næsta hlutann af neyðarlánum sínum, eða 8,8 milljarða evra, frá Evrópusambandinu og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum.

Í Grikklandi er fjórði hver vinnandi maður opinber starfsmaður og hingað til hefur slíkt staða verið veitt til lífstíðar.

Í frétt CNNMoney segir að þessar uppsagnir muni koma ofan í mikið atvinnuleysi en það mælist um 27% í Grikklandi. Áður hafa laun opinberra starfsmanna verið lækkuð um 30% og lífeyrisréttindi þeirra hafa verið skert.

Meðan að þingið ræddi um fyrrgreind lög í gærdag var efnt til mótmæla fyrir utan þinghúsið en mótmælendur töldu að með lögunum væri verið að leggja niður velferðarkerfi gríska ríkisins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×