Viðskipti erlent

Listaverkauppboð Christie´s sló öll met

Uppboð á nútíma myndlistarverkum hjá Christie´s í New York í gærkvöldi sló öll fyrri verðmet hvað heildarupphæðina varðar.

Í frétt um málið á vefsíðu BBC segir að tæplega hálfur milljarður dollara eða um 60 milljarðar króna hafi fengist fyrir verkin á uppboðinu. Þetta er hæsta upphæð sem fengist hefur á einu uppboði í sögunni. 16 önnur verðmet voru slegin en 9 af verkunum  fóru á yfir 10 milljónir dollara, eða 1,2 milljarða kr. hvert og 23 verk fóru á yfir 5 milljónir dollara.

Meðal verka sem boðin voru upp má nefna verk eftir Jackson Pollock, Roy Lichtenstein og Jean-Michel Basquiat.

Hæsta verðið fyrir málverk á uppboðinu kom í hlut verksins Number 19 eftir Pollock frá árinu 1948. Fyrir það verk fengust rúmlega 58 milljónir dollara sem var nærri tvöfalt verðmatið á því fyrir uppboðið. Þetta er hæsta verð sem fengist hefur á uppboði fyrir verk eftir Pollock.

Eitt af verkum Lichtenstein var slegið á rúmlega 56 milljónir dollara sem er einnig hæsta verð sem fengist hefur fyrir verk eftir þann málara og eitt af verkum Basquiat var slegið á tæplega 49 milljónir dollara sem einnig er met.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×