Viðskipti erlent

Frankenstein vafningar vakna til lífs að nýju

Í grein á vefsíðu Financial Times er spurt hvort Frankenstein sé að vakna til lífs að nýju. Hér er átt við áhættusama skuldavafninga, svokallaða CDO, sem eru aftur farnir að skjóta upp kollinum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Fyrir þremur árum virtist sem þeir hryllilegri af þessum skuldavafningum heyrðu sögunni til, það er þeir þar sem vafið var saman í einn pakka fyrirtækjaskuldum, ríkisskuldum og fasteignaskuldum. Slíkir vafningar voru einn stærsti þátturinn í því að fjármálakerfi heimsins rambaði á barmi algers hruns árið 2008 og þá einkum vegna þess hve mikið magn af svokölluðum undirmálslánum á bandaríska fasteignamarkaðinum hafði verið sett í þessa vafninga.

Í Financial Times segir að útgáfa á slíkum skuldavafningum hafi hrunið úr 648 milljörðum dollara árið 2007 og niður í 98 milljarða dollara árið 2009. Það sem af er þessu ári nemur útgáfan þegar 37 milljörðum dollara og mörg fjármálafyrirtæki virðast ætla að hoppa á þennan vagn að nýju.

JPMorgan reið á vaðið

Í Financial Times er farið stuttlega yfir sögu þessara skuldavafninga. Upphafið má rekja til bankamanna hjá JPMorgan um miðjan síðasta áratug síðustu aldar. Þeir byrjuðu að endurpakka fyrirtækjaskuldum í skuldavafninga til að draga úr áhættu bankans af þeim skuldum. Með því að setja skuldirnar í afleiður gátu þeir selt þær áfram til annarra fjárfesta.

Upphaflega gekk þetta vel en í framhaldinu tóku áhættufjárfestar þessa hugmynd lengra og byrjuðu að pakka með ríkisskuldum og síðar fasteignaskuldum og þar með varð fjandinn laus af svo má að orði komast. Þegar komið var fram á þessa öld varð leikurinn æ hættulegri að því er segir í Financial Times enda urðu vafningarnir svo flóknir í lokin að fáir skildu þá.

Opið og gegnsætt

Það sem veldur því að skuldavafningar þeir sem að framan greinir eru að verða vinsælir að nýju eru almennt mjög lágir vextir víða í heiminum en þó einkum á Vesturlöndum. Vafningarnir bera mun hærri vexti en eru jafnframt mun áhættusamari en aðrar fjárfestingarvörur.

Financial Times segir að ef þessir vafningar eigi að verða hluti af alþjóðlegum fjármálamörkuðum að nýju þurfi allt ferlið í kringum þá, og uppbygging þeirra, að vera opið og gegnsætt. Þeir þurfi að vera einfaldir að gerð og geta staðist sveiflur á vöxtum. Ef slíkt er ekki gert ætti að skilja þá áfram eftir í líkkistunni. Sjá nánar hér.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×