Viðskipti erlent

Pihl & Sön stoppar vinnu sína við Hotel d´Angleterre

Byggingarfélagið Pihl & Sön hefur stöðvað alla vinnu sína við endurbæturnar á Hotel d´Angleterre í Kaupmannahöfn. Þessi vinnustöðvun nær einnig til allra undirverktaka sem unnið hafa með Pihl & Sön í hótelinu. Ástæðan er sú að Pihl & Sön hefur ekki fengið neinar greiðslur fyrir vinnu sína í langan tíma.

Í frétt um málið í Ekstra Bladet segir að vinnan hafi verið stöðvuð í gærdag og ekkert liggi fyrir um hvenær hún hefjist að nýju. Pihl & Sön hefur unnið við endurbætur á Hotel d´Angleterre frá árinu 2011 og hótelið var opnað að hluta til fyrir gesti og gangandi í síðasta mánuði.

Áður hefur komið fram í dönskum fjölmiðlum að endurbætur þessar hafi þegar kostað mun meira en gert var ráð fyrir. Sökum þess skilaði hótelið tapi upp á 461 milljón danskra kr. á síðasta ári eða tæpum 10 milljörðum kr.

Það er Remmen sjóðurinn sem á hótelið en höfuðstöðvar hans eru í skattakjólinu Liechenstein. Sören Melgaard einn af stjórnarmönnum sjóðsins segir að það hafi verið góð hugmynd að selja Íslendingum hótelið árið 2007. Á sama hátt hafi það verið slæm hugmynd að kaupa það aftur árið 2011.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×