Handbolti

Gunnar: Hugafarið hjá leikmönnum var til fyrimyndar

Sigmar Sigfússon skrifar
Eyjamenn fóru illa með HK í Digranesinu, 28-37, í 5. umferð Olís-deildar karla í dag. ÍBV kláraði leikinn í fyrri hálfleik og voru með tólf marka forystu í hálfleik. Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV, var að vonum sáttur í viðtali við Vísi eftir leikinn.

„Frábær fyrri hálfleikur hjá okkur. Við mættum tilbúnir til leiks eftir að hafa tapað í síðasta leik,“ sagði Gunnar og bætti við: „Við ætluðum að svara fyrir það og mættum ákveðnir í leikinn og kláruðum hann í fyrri hálfleik“.

Eyjamenn voru duglegir við að skipta yngri leikmönnum inn á í seinni hálfleik en náðu þó að halda öruggri forystu út leikinn.

„Við rúlluðum aðeins á liðinu og eðlilega slaknaði eitthvað á okkar mönnum. Það er stundum erfitt að ráða við það þegar lið eru komin með svona góða forystu snemma í leikjum.“

„En svona heilt yfir er ég mjög sáttur við fyrri hálfleikinn og þessi tvö stig. Hugafarið hjá leikmönnum var til fyrimyndar í upphafi og grimmdin sömuleiðis. Ég get ekki annað en verið sáttur,“ sagði Gunnar Magnússon, þjálfari ÍBV, ánægður að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×