Handbolti

Naumur sigur refanna í Berlín

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Füchse Berlín endurheimti þriðja sæti þýsku úrvalsdeildarinnar með naumum sigri á Melsungen á heimavelli, 24-22, í dag.

Berlínarliðið byrjaði betur og var með forystu í hálfleik, 12-10. Melsungen, sem hefur komið á óvart í vetur, var þó öflugt í síðari hálfleik og náði forystu, 16-15, þegar rúmur stundarfjórðungur var til loka.

Leikurinn var í járnum eftir þetta en lærisveinar Dags Sigurðssonar reyndust sterkari á lokasprettinum. Pavel Horak skoraði lokamark leiksins þegar tæp mínúta var eftir og gerði þar með út um leikinn.

Füchse Berlin er nú með 28 stig og er þremur stigum á eftir toppliði Flensburg. Kiel er í öðru sæti með 30 stig en á leik til góða.

Emsdetten tapaði fyrir Gummersbach á heimavelli, 27-25. Oddur Gretarsson skoraði þrjú mörk fyrir Emsdetten, Ólafur Bjarki Ragnarsson og Ernir Arnarson tvö hvor.

Emsdetten er í neðsta sæti deildarinnar með fjögur stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×