Enski boltinn

Amorim getur ekki byrjað al­veg strax í nýju vinnunni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Rúben Amorim fagnar eftir 2-4 sigur Sporting á Braga í gær. Það var síðasti leikur hans við stjórnvölinn hjá Lissabonliðinu.
Rúben Amorim fagnar eftir 2-4 sigur Sporting á Braga í gær. Það var síðasti leikur hans við stjórnvölinn hjá Lissabonliðinu. getty/Diogo Cardoso

Rúben Amorim getur ekki tekið formlega til starfa hjá Manchester United fyrr en hann fær atvinnuleyfi.

Amorim mætir til Englands í dag en hann mun ekki geta hafið störf formlega hjá United fyrr en atvinnuleyfi hans hefur verið samþykkt.

Það ætti þó ekki að koma að sök því flestir leikmanna United eru á leið í landsliðsverkefni. Ekki er heldur búist við því að það taki langan tíma fyrir Amorim að fá atvinnuleyfið.

Fyrsti leikur United undir stjórn Amorims er gegn Ipswich Town 24. nóvember. Fyrir þann leik verður hann formlega kynntur til leiks fyrir ensku pressunni. Þó er búist við því að Portúgalinn veiti sjónvarpsstöð United viðtal fyrir það.

Amorim stýrði Sporting í síðasta sinn í gær. Liðið mætti þá Braga og vann 2-4 sigur, þrátt fyrir að lenda 2-0 undir. Sporting er með fullt hús stiga á toppi portúgölsku úrvalsdeildarinnar eftir ellefu leiki.

United vann 3-0 sigur á Leicester City í gær, í síðasta leiknum undir stjórn Ruuds van Nistelrooy. Óvíst er hvort hann verður í starfsliði Amorims en það kemur í ljós á næstu dögum.

United er í 13. sæti ensku úrvalsdeildarinnar með fimmtán stig eftir ellefu leiki.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×