Handbolti

Ljónin steinlágu í Hamburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Löwen. Nordic Photos / Getty Images
Rhein-Neckar Löwen mátti þola risastórt tap gegn Evrópumeisturum Hamburg í þýsku úrvalsdeildinni í dag, 38-25.

Fyrir nokkrum dögum síðan vann Löwen glæsilegan sigur á Kiel í þýsku bikarkeppninni en svo virðist sem að sá leikur hafi tekið sinn toll. Lærisveinar Guðmundar Guðmundssonar voru dauðþreyttir.

Staðan í hálfleik var 19-13, Hamburg í vil, og heimamenn gengu á lagið í síðari hálfleik. Johannes Bitter átti stórleik í markinu og þeir Hans Lindberg og Domagoj Duvnjak skoruðu átta mörk hvor fyrir Hamburg.

Markahæstur í liði Löwen var línumaðurinn Bjarte Myrhol með átta mörk. Alexander Petersson og Stefán Rafn Sigurmannsson skoruðu eitt mark hvor.

Topplið Flensburg vann svo sannfærandi sigur á Minden, 35-28. Ólafur Gústafsson skoraði ekki fyrir Flensburg að þessu sinni.

Flensburg er með 31 stig en Kiel er í öðru sæti með 28 stig. Alfreð Gíslason og lið hans eiga þó tvo leiki til góða.

Löwen tapaði mikilvægum stigum í toppbaráttu deildarinnar í dag en liðið er með 25 stig í fimmta sæti. Hamburg komst upp í þriðja sæti með sigrinum í dag en liðið er með 27 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×