Handbolti

Geir og Erlingur stýrðu báðir sínum liðum til sigurs

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Geir Sveinsson, þjálfari HC Bregenz, tók frábært leikhlé sem breytti leiknum.
Geir Sveinsson, þjálfari HC Bregenz, tók frábært leikhlé sem breytti leiknum. Mynd/NordicPhotos/Getty
Geir Sveinsson, þjálfari HC Bregenz, og Erlingur Birgir Richardsson, þjálfari SG Westwien, stýrðu báðir sínum liðum til sigurs á útivelli í kvöld í austurrísku úrvalsdeildinni í handbolta.

Liðin eru með jafnmörg stig í 3. og 4. sæti deildarinnar fjórum stigum á eftir toppliði HC Hard. Sigrarnir í kvöld komu á móti liðum sem voru neðar í töflunni.

Geir Sveinsson sá sína stráka vinna þriðja deildarleikinn í röð þegar liðið vann 30-27 útisigur á  ULZ Schwaz en Bregenz-liðið hefndi um leið fyrir tap í bikarleik liðanna fyrir aðeins þremur dögum.

Það stefndi reyndar í annan sigur Schwaz sem var 19-17 yfir þegar 20 mínútur voru eftir. Geir tók þá leikhlé og kveikti i Bregenz-liðinu sem vann lokakafla leiksins 13-8.

Erlingur Birgir Richardsson stýrði SG Westwien til 38-36 sigurs á Union Leoben á útivelli en staðan í hálfleik var 23-19 fyrir Westwien.  Westwien er búið að vinna sex af síðustu átta deildarleikjum sínum.

Staðan var 36-36 þegar þrjár mínútur voru eftir en austurríski landsliðsmaðurinn Konrad Wilczynski skoraði tvö síðustu mörk leiksins og tryggði sínum mönnum sigurinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×