Viðskipti erlent

Fljóta glaðvakandi að feigðarósi

Þorgils Jónsson skrifar
Náist ekki samkomulag á bandaríska þinginu um lausn í deilum um fjárlög og skuldir ríkisins stefnir í greiðslufall ríkissjóðs með ófyrirséðum afleiðingum.
Náist ekki samkomulag á bandaríska þinginu um lausn í deilum um fjárlög og skuldir ríkisins stefnir í greiðslufall ríkissjóðs með ófyrirséðum afleiðingum. NordicPhotos/AFP
Pattstaðan í Washington er nú harðari en nokkru sinni fyrr þar sem gjá milli flokka ógnar stöðugleika um heim allan.

Vika er síðan lokað var fyrir öll ríkisútgjöld sem ekki eru talin bráðnauðsynleg og nú stefnir allt í uppgjör næstu daga vegna skulda ríkissjóðs.

Repúblikanar, sem eru í meirihluta í fulltrúadeildinni, hafa hafnað því að semja við demókrata í öldungadeildinni um lausn mála nema gildistöku nýs sjúkratryggingakerfis, sem kennt er við Barack Obama forseta, verði frestað. Slíkt taka demókratar ekki í mál.

Samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna er það þingið eitt sem hefur vald til að stofna til skulda fyrir hönd ríkisins. Núverandi lög kveða á um að skuldir skuli ekki verða hærri en 16.700 milljarðar dala, sem nemur um 2.000.000 milljörðum króna. Sú fjárhæð er til dæmis 3.400 sinnum hærri en þeir 587 milljarðar sem eru heildarútgjöld íslenska ríkisins á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpi.

Ef ekki verður samið um að hækka skuldaþakið mun ríkissjóður ekki geta staðið undir útgjöldum og afborgunum af lánum, sem myndi leiða til greiðslufalls með alvarlegum afleiðingum. Svipuð staða kom upp síðast þegar skuldir þokuðust nálægt löglegu marki, sumarið 2011. Þá náðu flokkarnir ekki saman fyrr en á ögurstundu og lögin um hærra skuldaþak voru staðfest sama dag og búist var við að gjaldfall yrði.

Það hafði engu að síður miklar afleiðingar þar sem tiltrú neytenda dróst saman, erlendir aðilar forðuðust ríkisskuldabréf um hríð og hlutabréfamarkaðir tóku dýfu. Auk þess var lánshæfismat bandaríska ríkisins lækkað um flokk. Flestir sérfræðingar sem hafa gefið álit sitt á framvindunni telja líklegast, í ljósi reynslunnar, að flokkarnir nái saman að lokum. 

Vandræðin varpa þó enn og aftur ljósi á það hversu stirt er milli flokkanna og hversu mikið ógagn kyrrstöðuástandið vinnur almenningi, efnahag og atvinnulífi þar í landi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×