Viðskipti erlent

Branson tekur á móti Bitcoin

Freyr Bjarnason skrifar
Auðkýfingurinn segir Bitcoin nýjan og spennandi gjaldmiðil.
Auðkýfingurinn segir Bitcoin nýjan og spennandi gjaldmiðil. nordicphotos/afp
Breski auðkýfingurinn Sir Richard Branson mun taka við stafræna gjaldmiðlinum Bitcoin frá þeim sem ætla að kaupa ferð út í geiminn í gegnum fyrirtæki hans Virgin Galactic.

Í samtali við fréttastofuna NBC sagði hann þetta „nýjan og spennandi gjaldmiðil“ en hann var kynntur til sögunnar árið 2008. Miðinn út í geim kostar 250 þúsund dali, eða um þrjátíu milljónir króna.

Branson hefur tilkynnt um að fyrsta farþegaflugið út í geim verði farið á næsta ári. Branson og börnin hans Holly og Sam verða um borð í geimfarinu SpaceShipTwo sem þýtur af stað frá Nýju Mexíkó í Bandaríkjunum.

NBC mun fylgjast með förinni í beinni útsendingu. „Virgin Galactic er himinlifandi með að NBC Universal fari með okkur í þessa fyrstu ferð út í geiminn,“ sagði Branson. „Í þessum fyrsta kafla geimferða viljum við gera geiminn aðgengilegri og fá almenning úti um allan heim til að taka þátt í könnun alheimsins og til að vera hluti af nýjungum í vísindum.“

Sharon Scott, forseti og framkvæmdastjóri Peapock Productions sem er hluti af NBC News, er spennt fyrir beinu útsendingunni. „Þátttaka Sir Richards og barnanna hans í fyrsta farþegafluginu út í geiminn verður einn eftirminnilegasti atburður sjónvarpssögunnar.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×