Viðskipti erlent

Hagnaður Coca-Cola hrynur

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hlutabréfaverð í Coca-Cola, stærsta gosdrykkjaframleiðanda heims, hefur fallið meira á síðustu dögum en það hefur gert undanfarin 2 ár.

Þetta kemur fram í umfjöllun Businessweek af málinu.

Lækkunina má að miklu leyti rekja til samdráttar í eftirspurn í Bandaríkjunum og hægari vaxtar á nýjum mörkuðum en gert hafði verið ráð fyrir. Hagnaður fyrirtækisins á síðasta ársfjórðungi lækkaði um 8,4% og salan dróst saman um 3,6% á sama tíma.

Gosdrykkjaframleiðandinn hefur lýst því yfir að hann muni reyna að skera niður í rekstri sínum um einn milljarða bandaríkjadala árlega fram til ársins 2016 til að mæta fyrrgreindum áföllum. Hagræðingarnar munu einna helsta lýsa sér í heildarendurskoðun á markaðsherferðum fyrirtækisins.

Þrátt fyrir þessar yfirlýsingar eru fjárfestar óvissir um árangur aðgerðanna því hlutabréfaverð í Coca-Cola féll um 4,3% við opnun markaða í New York. Verð bréfanna féll um 5,8% á liðnu ári, en verð bréfa Pepsi co., helsta keppinautar Coca-Cola, féll einnig um 5,8% á sama tímabili.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×