Handbolti

Guðmundur náði fram hefndum gegn Dujshebaev

Guðmundur og Dujshebaev.
Guðmundur og Dujshebaev. vísir/getty
Lið Guðmundar Guðmundssonar tryggði sér sæti í átta liða úrslitum Meistararadeildarinnar er liðið vann fjögurra marka sigur, 27-23, á Kielce í seinni leik liðanna. Kielce vann fyrri leikinn, 32-28, og Löwen fer því áfram á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.

Það var mikil spenna fyrir leikinn enda sauð upp úr eftir fyrri leikinn er Talant Dujshebaev, þjálfari Kielce, kyldi Guðmund Guðmundsson, þjálfara Löwen, í punginn. Dujshebaev var síðan snarvitlaust á blaðamannafundinum eftir leik.

Dujshebaev slapp með sekt fyrir hegðun sína og var mættur á hlíðarlínuna í dag.

Löwen var með frumkvæðið allan fyrri hálfleikinn og leiddi með tveimur mörkum í hléi. Hálfur sigur unninn.

Drengur Guðmundar byrjuðu síðari hálfleik með látum. Vörnin small og Niklas Landin í hörkustuði þar fyrir aftan. Smám saman jókst forskotið og fyrr en varði var munurinn fimm mörk, 21-16.

Þá steig Kielce á bensínið og minnkaði muninn í tvö mörk, 21-19, þegar korter var eftir. Háspenna í SAP Arena.

Löwen tók aftur við sér og kom muninum upp í fimm mörk á nýjan leik. Munurinn næstu mínútur var þrjú til fimm mörk.

Þegar mínúta var eftir var munurinn fimm mörk, 27-22. Vörn Löwen stóð af sér áhlaup Kielce og Löwen fór í sókn. Eitt mark í viðbót og liðið væri klárlega komið áfram í næstu umferð.

Þeir töpuðu boltanum snemma og Kielce minnkaði muninn í 27-23 þegar 35 sekúndur voru eftir. Löwen náði að halda boltanum allt til enda og fagnaði síðan gríðarlega.

Stefán Rafn Sigurmannsson var frábær í liði Löwen og skoraði fimm mörk. Hann tók vítin og var pottþéttur á punktinum.

Alexander Petersson var óvenju rólegur og skoraði tvö mörk en lagði mörk upp fyrir Patrick Groetzki. Þórir Ólafsson skoraði tvö mörk fyrir Kielce.

Löwen getur mætt Flensburg, Metalurg og PSG í átta liða úrslitunum en dregið verður í fyrramálið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×