Handbolti

Ótrúlegur apríl hjá ljónum Guðmundar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen. Vísir/Getty
„Svona er þetta bara þegar maður er með á öllum vígstöðum,“ sagði Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Rhein-Neckar Löwen, um það mikla leikjaálag sem er fram undan í mánuðinum.

Í raun gæti stór hluti tímabilsins hjá Löwen ráðist á einni og sömu vikunni. Helgina 12.-13. apríl ráðast úrslitin í þýsku bikarkeppninni en næsta miðvikudag á eftir mætir Löwen liði Kiel í toppslag þýsku deildarinnar.

Kiel hefur tveggja stiga forystu á Löwen en lærisveinar Guðmundar komast á toppinn með sigri þar sem liðið er með aðeins betra markahlutfall.

Löwen drógst svo gegn Barcelona í 8-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu og fer fyrri leikurinn fram í Mannheim líklega helgina 19.-20. apríl.

„Við viljum auðvitað vinna bikarinn og munum vonandi spila úrslitaleikinn á sunnudeginum,“ sagði Guðmundur við Vísi í gær.

„En það þýðir að við förum aftur frá Hamburg á mánudeginum og höfum þá aðeins einn dag til að undirbúa okkur fyrir leikinn gegn Kiel,“ segir Guðmundur en Löwen sló út Kiel í 16-liða úrslitum bikarsins fyrr í vetur. Það þýðir að Alfreð Gíslason fær talsvert meiri tíma til að undirbúa lið sitt fyrir leikinn gegn Löwen.

„Barcelona hefur líka mikið forskot á okkur hvað sinn undirbúning varðar enda varla hægt að kalla þetta alvöru deild á Spáni,“ bætti Guðmundur við.

Hann segir erfitt að forgangsraða keppnunum. „Við höfum alltaf reynt bara að taka næsta leik og í raun er ekkert annað hægt að gera. Næst eru það bikarúrslitin í Hamburg og við stefnum að því að verða bikarmeistarar.“

„Svo tekur næsti leikur við eftir það. Þannig er það einfaldlega þegar maður er með á öllum vígstöðum. En það er líka skemmtilegt.“

Stærstu leikirnir í apríl:

12. apríl: Löwen - Flensburg (undanúrslit bikar)

13. apríl: Úrslitaleikur bikarkeppninnar

16. apríl: Löwen - Kiel (þýska úrvalsdeildin)

19./20. apríl: Löwen - Barcelona (Meistaradeild Evrópu)

26./27. apríl: Barcelona - Löwen (Meistaradeild Evrópu)


Tengdar fréttir

Tók bekkjarsetunni af æðruleysi

Stefán Rafn Sigurmannsson hefur komið frábærlega inn í lið Rhein-Neckar Löwen þegar Uwe Gensheimer hefur verið frá vegna meiðsla.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×