Handbolti

PSG blandar sér í kapphlaupið um Aron

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson er sagður á útleið hjá Kiel.
Aron Pálmarsson er sagður á útleið hjá Kiel. Vísir/Villi
Eins og greint var frá fyrr í dag er Aron Pálmarsson, leikmaður Þýskalandsmeistara Kiel og íslenska landsliðsins í handbolta, sagður leið frá Kiel í sumar.

Aron á eitt ár eftir af samningi sínum við þýska félagið en hefur enn ekki skrifað undir nýjan samning og bendir flest til þess að hann ætli að skipta um lið eftir tímabilið.

Vefmiðillinn Handball-Planet.com greinir frá því að ungverska liðið Veszprém og Katalóníurisinn Barcelona vilji fá Aron í sínar raðir.

Franska stórliðið Paris-Saint Germain, sem landsliðsmennirnir RóbertGunnarsson og Ásgeir Örn Hallgrímsson leika með, þykir einnig líklegt til að blanda sér í baráttuna um Aron í sumar.

Samkvæmt öruggum heimildum Vísis hafði PSG samband við Kiel fyrr á tímabilinu og spurðist fyrir um Aron en bakkaði á þeim tímapunkti þegar ljóst var að hann ætti eitt af eftir af samningnum og það þyrfti líklegast að kaupa hann út.

Nú þegar má reikna með að Aron rói á önnur mið þykir líklegt að PSG hafi aftur samband við Kiel. Þar eru til miklir peningar og er liðið nýkrýndur bikarmeistari í Frakklandi. Því tókst aftur á móti ekki að vinna Frakklandsmeistaratitilinn.

Ljóst er samt að það lið sem ætlar að fá Aron í sínar raðir þarf að borga Kiel væna summu því ekki sleppir félagið honum án greiðslu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×