Handbolti

Guðjón Valur: Þakkaði fyrir mig og sagði bless

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason sér á eftir Guðjóni Val Sigurðssyni til Barcelona.
Alfreð Gíslason sér á eftir Guðjóni Val Sigurðssyni til Barcelona. Vísir/getty
Stórlið Barcelona tilkynnti í dag að félagið hefði gert tveggja ára samning við landsliðsfyriliðann Guðjón Val Sigurðsson sem yfirgefur herbúðir þýska liðsins Kiel í sumar eftir tveggja ára dvöl.

Þetta hefur legið í loftinu undanfarnar vikur og mánuði en var loksins opinberað í dag. Guðjón Valur gat því loksins leyft sér að tjá sig um vistaskiptin þegar Vísir heyrði í honum. Hann er staddur í Sarajevo í Bosníu en Ísland leikur þar mikilvægan leik á morgun í umspili HM 2015.

Hann segist hafa ákveðið að líta í kringum sig eftir að samningaviðræður við Kiel sigldu í strand fyrr í vetur. „Ég fékk tilboð frá Kiel sem ég var ekki nógu ánægður með, í hreinskilni sagt. Ég bað því umboðsmann minn um að kanna hvaða möguleikar væru í stöðunni fyrir mig,“ segir Guðjón Valur

„Það var búið að halda manni í óvissu í tvo, þrjá mánuði og svo þegar tilboðið kom loksins hafði ég aðeins þrjá daga til að gefa svar. Þá þakkaði ég bara fyrir mig og sagði bless,“ segir Guðjón Valur en bætir við að hann hafi rætt málin við stjórn Kiel og skilji við félagið á góðum nótum.

„Stjórnin ætlaði með þessu að setja pressu á mig en hætti svo við það. Það var allt í góðu okkar á milli.“

Hann segir það draumi líkast að ganga til liðs við stórlið eins og Barcelona, þó svo að spænska deildin sé ekki jafn sterk og sú þýska.

„En liðið sjálft er sterkt og æfir vel. Ég tel þetta ekki verra að fara til Spánar enda að fara til liðs sem ætlar sér stóra hluti og vinna Meistaradeildina aftur. Það skiptir mig miklu máli,“ segir Guðjón Valur en nánar er rætt við hann í Fréttablaðinu á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×