Handbolti

Aron: Ekki skref niður á við

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Aron Pálmarsson, leikmaður Kiel og íslenska landsliðsins í handbolta, er búinn að ganga frá samningi við ungverska stórliðið MKB Veszprém.

Hann gengur í raðir þess næsta sumar að öllu óbreyttu en vonast til að Kiel og Veszprém komist að samkomulagi um kaupverð svo hann geti farið strax í sumar.

Guðjón Guðmundsson ræddi við Aron í Austurbergi í gærkvöldi þar sem hann var að horfa á samherja sína í landsliðinu vinna Portúgal í undirbúningi fyrir umspilsleikina gegn Bosníu. Hann sagði ákvörðunina ekki hafa verið erfiða.

„Nei, í sjálfu sér ekki. Ég var hálfpartinn búinn að ákveða að ég ætlaði að klára þennan samning hjá Kiel og fara svo. Þegar ég var farinn að íhuga það alvarlega fór ég að athuga hvað væri í boði og Veszprém hljómaði vel,“ sagði Aron.

„Þetta er allt öðruvísi þarna í Ungverjalandi en í Þýskalandi. Hvað handboltann varðar tel ég þetta ekkert endilega vera skref niður á við. Þetta er toppfélag sem ætlar sér stóra hluti á næstu 3-5 árum. Þeir ætla sér að vinna Meistaradeildina sem seldi mér þetta svolítið.“

Vitað var að Barcelona hafði áhuga á Aroni og þá greindi Vísir frá því í síðustu viku að Paris Saint-Germain væri einnig í kapphlaupinu um Aron.

„Það var áhugi og tilboð frá París. Þeir sýndu mér næstmestan áhuga og ég var spenntur fyrir því. Það er skemmtilegt verkefni í gangi þar. Á endanum hafði Veszprém bara betur,“ sagði Aron sem er langt frá því að vera heill heilsu.

„Heilsan er ekki góð, ég get sagt þér það. Hún er ekki búin að vera góð í vetur og ég hef ekki fengið mína hvíld eftir aðgerðina sem ég fór í aðgerðina fyrir ári síðan. Vonandi fær maður sumarið til að ná sér góðum,“ sagði Aron Pálmarsson.


Tengdar fréttir

Aron bestur í Meistaradeild Evrópu

Aron Pálmarsson var í dag valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í Meistaradeild Evrópu en það var kunngjört eftir úrslitaleikinn í dag.

Aron búinn að semja við Veszprém

Ungverska félagið Veszprém tilkynnti á heimasíðu sinni í dag að það væri búið að semja við íslenska landsliðsmanninn Aron Pálmarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×