Handbolti

Ólafur: Gaf það sem ég gat til félagsins

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur fagnar með samherjum sínum í dag.
Ólafur fagnar með samherjum sínum í dag. Vísir/Getty
Ólafur Gústafsson varð í dag Evrópumeistari í handbolta eftir sigur Flensburg á Kiel í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu í Köln í dag.

Ólafur kom ekkert við sögu í leiknum en fagnaði eins og gefur að skilja gríðarlega með samherjum sínum í leikslok.

„Þetta er algjört öskubuskuævintýri. Við vorum „underdogs“ í báðum leikjunum um helgina og verðum sigurvegarar. Þetta var ótrúlegt,“ sagði Ólafur við Vísi í kvöld.

„Markvörðurinn okkar [Mattias Andersson] bjargaði okkur og vann þetta. Hann var frábær. Hann segist ætla að hætta eftir eitt ár en hann er enn í heimsklassa. Mér þætti ótrúlegt ef hann stæði við það.“

Ólafur var fenginn til Flensburg á síðasta tímabili þegar Arnór Atlason, þáverandi leikmaður liðsins, sleit hásin. Fleiri meiðsli voru í herbúðum liðsins en hlutverk Ólafs minnkaði eftir því sem að þeim fækkaði.

„Ég geng sáttur frá borði,“ segir Ólafur sem fer í raðir Álaborgar í Danmörku í sumar. „Ég gaf það sem ég gat til félagsins og var alltaf til staðar þegar þeir þurftu á mér að halda.“

„Nú tekur bara nýtt verkefni við í Álaborg - ég tek þennan titil bara með þeim næst,“ sagði Ólafur og hló.


Tengdar fréttir

Magnaður sigur Flensburg í Meistaradeildinni

Enn og aftur varð Guðjón Valur Sigurðsson af Evrópumeistaratitlinum en Flensburg vann í dag Meistaradeild Evrópu eftir sigur á Kiel í úrslitaleik, 30-28.

Aron bestur í Meistaradeild Evrópu

Aron Pálmarsson var í dag valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í Meistaradeild Evrópu en það var kunngjört eftir úrslitaleikinn í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×