Handbolti

Íslendingaslagur í úrslitum

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Aron var óstöðvandi í gær
Aron var óstöðvandi í gær vísir/getty
Úrslitin ráðast í Meistaradeild Evrópu í handbolta í dag. Fyrst mætast Barcelona og Veszprém í leiknum um þriðja sætið klukkan 13:15. Það er svo klukkan 16 sem úrslitaleikur Kiel og Flensburg hefst en allt er þetta í beinni útsendingu Stöðvar 2 Sport.

Flensburg tekur þátt í úrslitahelginni, Final4, í fyrsta sinn en þetta er í fimmta sinn sem úrslit Meistaradeildarinnar ráðast á þennan hátt í Köln.

Kiel er aftur á móti í úrslitum Final4 í þriðja sinn en liðið vann í hin tvö skiptin, árin 2010 og 2012.

Kiel hefur þrisvar unnið þennan eftirsóknarverða titil en árið 2007 mætti liðið Flensburg í úrslitum. Þá var leikið heima og að heiman og þá vann Kiel seinni leikinn með tveimur mörkum eftir að liðin skildu jöfn í fyrri leiknum.

Það var í annað skiptið sem Flensburg komst í úrslit Meistaradeildarinnar en þremur árum áður tapaði liðið fyrir Celje.

Flensburg komst í úrslitaleikinn þvert á allar spár með ótrúlegum sigri á Barcelona í gær í vítakastkeppni. Flensburg virtist vera með tapaðan leikin bæði í venjulegum leiktíma og framlengingunni en liðið gefst ekki upp og því má alls ekki útiloka liðið í dag þó Kiel sé fyrirfram talið mun sigurstranglegra.

Ólafur Gúastafsson leikur með Flensburg en ekki er líklegt að hann taki mikinn þátt í leiknum. Aron Pálmarsson og Guðjón Valur Sigurðsson voru bestu menn Kiel í gær gegn Veszprém ásamt Rene Toft Hansen.

Þeir verða áfram í lykilhlutverki hjá Kiel en Guðjón Valur vonast til að vinna Meistaradeildina í fyrsta sinn líkt og Ólafur Gústafsson. Aron hefur unnið hana í tvígang undir stjórn Alfreðs Gíslasonar og stefna þeir á þriðja sigurinn í dag á fimm árum sem væri ótrúlegur árangur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×