Handbolti

Geir Sveinsson: Þetta var sárt

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Geir Sveinsson þjálfaði Bregenz í Austurríki á síðustu leiktíð.
Geir Sveinsson þjálfaði Bregenz í Austurríki á síðustu leiktíð. vísir/getty
Geir Sveinsson var nálægt því að landa sigri gegn Rhein-Neckar Löwen, silfurliði síðasta tímabils, í fyrsta leik sínum sem þjálfari Magdeburg í þýsku 1. deildinni í handbolta í gær.

Gestirnir spiluðu frábæra fyrstu 50 mínútur leiksins, sérstaklega varnarleikinn, og þá var danski landsliðsmarkvörðurinn JannickGreen sjóðheitur í markinu.

Þegar rétt rúmar tíu mínútur voru eftir var Magdeburg yfir, 20-17, en þá loks hrukku ljónin í gang. Þau skoruðu næstu fjögur mörk, breyttu stöðunni í 21-20 og héldu forystunni út leikinn. Lokatölur, 24-23.

„Þetta tap var sárt. Ég er samt stoltur af mínu liði, það barðist hetjulega,“ sagði Geir Sveinsson við þýska sjónvarpið eftir leikinn.

Bæði lið voru með nýjan þjálfara því Daninn NicolajJacobsen stýrði Löwen í fyrsta skipti í þýsku 1. deildinni. Hann tók við Ljónunum af GuðmundiGuðmundssyni sem er nú þjálfari danska landsliðsins.

Eftir að Jacobsen tók í höndina á Geir Sveinssyni og þakkaði honum fyrir leikinn mátti sjá á látbragði Danans, að hann var þakklátur fyrir stigin tvö en ekkert meira. Og það staðfesti hann svo í viðtali eftir leikinn.

„Ég er ánægður með stigin tvö en ekki frammistöðuna. Það var gaman að vinna leikinn, en sigurinn var ekki fallegur,“ sagði Nicolaj Jacobsen sem gerði Álaborg að meisturum í Danmörku í fyrra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×