Handbolti

Tandri setti í fimmta gír á lokamínútunum og tryggði Ricoh eitt stig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Tandri Már Konráðsson varð Íslandsmeistari með HK 2012.
Tandri Már Konráðsson varð Íslandsmeistari með HK 2012. vísir/daníel
Tandri Már Konráðsson, leikmaður nýliða Ricoh í sænsku úrvalsdeildinni í handbolta, var hetja sinna manna í kvöld þegar hann tryggði því annað stigið gegn Skövde á heimavelli.

Gestirnir voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 12-9, og héldu tveggja til þriggja marka forskoti nær allan seinni hálfleikinn.

Tandri Már fór rólega af stað og skoraði þrjú mörk úr átta skotum til að byrja með, en hann setti í fimmta gír undir lokin og var allt í öllu í sóknarleik sinna manna.

Hann skoraði fimm mörk úr fimm skotum á síðustu sex mínútum leiksins og tryggði Ricoh jafntefli með marki þegar 50 sekúndur voru eftir. Lokatölur, 21-21.

Í heildina skoraði Tandri átta mörk úr þrettán skotum fyrir nýliðana sem eru nú búnir að gera þrjú jafntefli í fyrstu átta leikjum sínum í deildinni.

Ricoh er í tólfta sæti af fjórtán liðum með fimm stig eftir átta leiki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×