Handbolti

Snorri Steinn: Enginn á felgunni eftir þennan leik

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Snorri Steinn skoraði eitt mark í kvöld.
Snorri Steinn skoraði eitt mark í kvöld. Vísir/Vilhelm
"Þetta eru leikir sem þarf að spila og það af krafti. En það er betra að spila á móti liði eins og Serbíu í Höllinni," sagði Snorri Steinn Guðjónsson, leikstjórnandi Íslands, eftir stórsigurinn á Ísrael í kvöld, aðspurður hvort það væri ekki fínt að vera búinn með þennan skyldusigur.

"Við gerðum þetta vel fyrir utan smá vesen til að byrja með. En við vorum fljótir að finna taktinn og lönduðum öruggum sigri," sagði Snorri.

Þrátt fyrir erfiðar fyrstu 22 mínútur í leiknum áttu strákarnir ekki í neinum vandræðum með að rúlla yfir Ísraela í seinni hálfleik. Sigurinn risastór og spurning hvað liðið fékk út úr þessu.

"Svartfjallaland spilar t.d. svipaða vörn þannig auðvitað fengum við eitthvað út úr þessu. En þessi leikur gefur okkur ekki neinn skapaðan hlut á sunnudaginn. Þar fáum við öðruvísi leik sem við þurfum að vera enn tilbúnari í. En við erum alltaf tilbúnir," sagði Snorri Steinn.

"Þetta kostaði ekkert alltof mikla krafta í kvöld; við rúlluðum á liðinu sem er kannski það jákvæðasta við leikinn. Það er enginn á felgunni eftir þennan leik. Allavega geri ég ekki ráð fyrir því."

"Það er samt alltaf gott að vinna og senda einhver skilaboð þó þessi riðill snúist á endanum ekki um Ísrael. Leikirnir á móti Svartfjalllalandi og Serbíu munu ráða úrslitum í þessu,” sagði Snorri Steinn.

Leikstjórnandinn magnaði hefur verið að skora grimmt í frönsku deildinni þar sem hann spilar með Sélestad, en með landsliðinu hefur hann sig hægan.

"Eins og hefur verið í landsliðinu þá set ég upp þau kerfi sem ég og þjálfarinn telja best. Stundum skora ég og stundum ekki. Eins og ég hef sagt áður þá eru þetta tvö ólík hlutverk sem ég sinni hjá þessum liðum. Það kemur fyrir að maður sé meira opinn í Frakklandi. En ef eitthvað lið ætlar ekki að taka mig alvarlega í landsleikjum þá þruma ég auðvitað á markið," sagði Snorri Steinn Guðjónsson.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×