Handbolti

Snorri Steinn og Arnór fögnuðu báðir sigri á útivelli

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason.
Arnór Atlason. Vísir/Stefán
Landsliðsmennirnir Snorri Steinn Guðjónsson og Arnór Atlason unnu báðir góða útisigra með liðum sínum í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en Ásgeir Örn Hallgrímsson var aftur á móti í tapliði. Róbert Gunnarsson og félagar í PSG unnu sigur á heimavelli.

Snorri Steinn Guðjónsson skoraði 3 mörk úr 7 skotum þegar Sélestat vann 25-23 útisigur á Tremblay HB. Sélestat var fimm stigum og sex sætum á eftir Tremblay fyrir leikinn og þessi sigur því glæsilegur.

Arnór Atlason skoraði fjögur mörk Saint Raphaël vann þriggja marka útisigur á Dunkerque, 36-33. Arnór nýtti 4 af 6 skotum sínum í leiknum.

Ásgeir Örn Hallgrímsson og félagar í Nimes töpuðu með minnsta mun, 28-27, á móti Créteil á útivelli en Créteil var í þriðja neðsta sæti deildarinnar fyrir leikinn. Ásgeir Örn skoraði eitt mark úr fimm skotum í leiknum.

Róbert Gunnarsson skoraði 3 mörk úr 4 skotum þegar Paris Saint-Germain vann þriggja marka heimasigur á Toulouse, 34-31. Danska stórskyttan Mikkel Hansen var markahæstur hjá PSG með sjö mörk.

Saint Raphaël, lið Arnórs Atlasonar, er í 2. sæti deildarinnar, þremur stigum á eftir toppliði Montpellier og einu stigi á undan PSG. Sélestat er í 11. sæti en Nimes-liðið er komið alla leið niður í þrettánda sæti eftir þetta tap í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×