Handbolti

Tíu mörk Snorra Steins dugðu ekki í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Snorri Steinn Guðjónsson.
Snorri Steinn Guðjónsson. Vísir/Stefán
Snorri Steinn Guðjónsson átti flottan leik með Sélestat í frönsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en það dugði þó ekki því Sélestat tapaði með þremur mörkum á heimavelli á móti Aix.

Snorri Steinn skoraði tíu mörk í leiknum og átti auk þess þrjár skráðar stoðsendingar samkvæmt tölfræði franska handboltasambandsins. Snorri skoraði fimm mörkum meira en næst markahæsti leikmaður Sélestat-liðsins, Radu Cristian Ghita.

Sélestat komst reyndar í 5-1 í leiknum og var 11-7 yfir eftir 22 mínútna leik en í hálfleik munaði aðeins tveimur mörkum, 14-12.

Aix tók frumkvæðið í leiknum með því að breyta stöðunni úr 20-20 í 20-23 og hélt þriggja marka forystu út leikinn.

Snorri Steinn skoraði sitt tíunda mark þegar hann minnkaði muninn í 21-23 en lét verja frá sér vítakast eftir það.

Snorri nýtti 5 af 12 skotum sínum utan af velli í leiknum og 5 af 7 vítum sínum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×