Viðskipti erlent

Uber bannað í Taílandi

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Þjónusta Uber er margvísleg en hægt er að panta far með venjulegum bíl og lúxusbílum.
Þjónusta Uber er margvísleg en hægt er að panta far með venjulegum bíl og lúxusbílum. Vísir / Getty Images
Leigubílaþjónustan Uber hefur nú verið bönnuð í Taílandi. Samgönguyfirvöld í landinu segja að ökumenn fyrirtækisins hafi ekki leyfi til að keyra í atvinnuskini og greiðsluleiðin sem notuð er hjá Uber sé ekki í samræmi við reglugerðir sem gilda í landinu, samkvæmt Reuters.

Vísir sagði frá því í gær að stjórnvöld í Nýju Delí á Indlandi hefðu tekið samskonar ákvörðun eftir að bílstjóri á vegum fyrirtækisins var kærður fyrir að nauðga kvenkyns farþega. Bannið þar í landi nær til allra leigubílaþjónusta sem starfa eins og Uber, í gegnum netið, án sérstakrar skráningar hjá yfirvöldum.

Greint var frá því í gær að Uber væri að undirbúa að hefja starfsemi hér á landi. Fyrirtækið er nú þegar með starfsemi í 51 landi í heiminum, þar á meðal á Norðurlöndunum.

Starfsemi Uber er í grunninn samskonar hefðbundinni leigubílaþjónustu; þeir sem þurfa að komast frá einum stað til annars panta leigubíl sem síðan er greitt fyrir. Munurinn felst fyrst og fremst í því að ekki er pantað í gegnum hefðbundið símaver heldur í gegnum app þar sem notandinn getur valið þann bíl sem staðsettur er næst viðkomandi. Greiðsla fyrir aksturinn fer einnig fram í gegnum appið.

Uber bíður upp á mismunandi þjónustur; allt frá einskonar lággjaldaþjónustu þar sem venjulegir, ómerktir bílar eru notaðir til lúxusþjónustu þar sem viðskiptavinir eru sóttir á eðalvögnum.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×