Handbolti

Erlingur búinn að gera þriggja ára samning við Füchse Berlin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Erlingur Birgir Richardsson fagnar Íslandsmeistaratitlinum með HK vorið 2012.
Erlingur Birgir Richardsson fagnar Íslandsmeistaratitlinum með HK vorið 2012. Vísir/Vilhelm
Erlingur Birgir Richardsson verður eftirmaður Dags Sigurðssonar hjá þýska úrvalsdeildarliðinu Füchse Berlin en hann er búinn að gera þriggja ára samning samkvæmt heimildum íþróttadeildar 365.

Félagið mun tilkynna þetta á næstu dögum. Erlingur hefur verið sterklega orðaður við þýska liðið að undanförnu en hann var frá fyrsta degi efstur á óskalista liðsins og framkvæmdastjórans Bob Hanning.

Erlingur Birgir Richardsson er á sínu öðru ári með austurríska liðið SG Handball West Wien en hann þjálfaði meðal annars áður lið ÍBV í 1. deild karla 2012-13 og lið HK sem varð Íslandsmeistari undir stjórn hans og Kristins Guðmundssonar vorið 2012.

Erlingur er að gera flotta hluti með lið SG Handball West Wien sem er þessa stundina í efsta sæti austurrísku deildarinnar með tólf sigra og 24 stig í fimmtán fyrstu umferðum tímabilsins.

Dagur Sigurðsson hefur þjálfað lið Füchse Berlin frá árinu 2008 en hann hættir með liðið í vor og einbeitir sér að því að þjálfa þýska landsliðið.

Íslensku þjálfararnir eru því áfram afar vinsælir í Þýskalandi enda hafa þeir náð mjög góðum árangri síðustu ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×