Handbolti

Aron: Ég hef fengið nokkur símtölin í vetur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aron Kristjánsson er nýr þjálfari danska stórliðsins KIF Kolding.
Aron Kristjánsson er nýr þjálfari danska stórliðsins KIF Kolding. Vísir/Daníel
Aron Kristjánsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handbolta, mun þjálfa danska úrvalsdeildarliðið KIF Kolding Kaupmannahöfn út þetta tímabil en hann fékk leyfi frá HSÍ.

„Þeir höfðu samband við mig strax eftir EM. Þeir eru í töluverðum vandræðum í augnablikinu. Það hafa hrannast upp meiðsli og veikindi hjá þeim undanfarið og það verður því mikil áskorun fyrir mig að fara þangað og klára tímabilið,“ sagði Aron en hann fór út í morgun.

„Þetta eru ekki þeir fyrstu sem hafa verið að krukka í mann og ég hef fengið nokkur símtölin í vetur. Það hefur ekki verið á dagskránni að fara út en þetta hentaði vel. EM var búið og það eru engin stór verkefni hjá landsliðinu fyrr en í sumar,“ sagði Aron. Hann segir forráðamenn Kolding gera sér grein fyrir því að þeir eigi í vandamálum með hópinn.

„Það er hrikalega áskorun að taka við þeim núna þegar þeir eru í svona miklum vandamálum. Þegar þeir eru með fullt lið og enga meidda þá er þetta mjög sterkt lið. Núna er liðið í öðru sæti í deildinni á eftir mínum gömlu félögum í Skjern. Það verður gaman að kljást við þá,“ segir Aron sem segir vörn og markvörslu vera aðalstyrk Kolding-liðsins í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×