Handbolti

Einstök þrenna hjá bæði Alfreð og Aroni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Alfreð Gíslason bregður á leik.
Alfreð Gíslason bregður á leik. Vísir/Getty
Fögnuður leikmanna Kiel var rosalegur þegar þeir áttuðu sig að þeir höfðu unnið upp sjö marka forskot Rhein-Neckar Löwen og tryggt sér þýska meistaratitilinn þriðja árið í röð.

Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel, var að gera lið að þýskum meisturum í sjötta sinn á ferlinum en sjónvarpsmyndirnar sýndu hann varla trúa þessu fyrr en allir leikmenn og starfsmenn Kiel voru farnir að hoppa um í stjórnlausri gleði allt í kringum hann.

Alfreð Gíslason átti ekki síður stórleik en leikmennirnir hans í fjórtán marka sigri á Füchse Berlin. Alfreð var á milljón á hliðarlínunni allan leikinn og það rann af honum svitinn í sjónvarpsviðtali eftir leik. Hann var búinn að skrifa enn einn kaflann í titlabók sína og það á tímabili þegar hver stórstjarnan á fætur annarri yfirgaf Kiel.

Guðjón Valur kyssir hér bikarinn.Vísir/Getty
Á sama tíma og leikmenn Kiel-liðsins voru búnir að brjóta niður alla mótstöðu hjá lærisveinum Dags Sigurðssonar fóru strákarnir hans Guðmundar Guðmundssonar algjörlega á taugum á lokakafla síns leiks.

Alexander Petersson kom Ljónunum átta mörkum yfir, 32-24, þegar sautján mínútur voru eftir en í stað þess að hlaupa yfir Gummersbach-liðið á lokakaflanum fór allt í baklás og Guðmundur þurfti að horfa upp á sína menn skjóta markvörð Gummersbach í stuð. Í lokin munaði aðeins fimm mörkum, 40-35, en átta marka munur hefði dugað. Endasprettur Kiel fær sinn sess í sögubókunum.

„Þetta er sögulegt og einstakt,“ sagði Alfreð Gíslason í sjónvarpsviðtali eftir leik. „Ég hef aldrei upplifað svona og satt að segja þá bjóst ég aldrei við þessu. Ég hélt að síðasta markið þeirra hefði farið með þetta en ég er ótrúlega stoltur af liðinu sem gaf allt,“ sagði Alfreð við Sport 1.

Vísir/Getty
Alfreð náði nú að vinna þrjú ár í röð, fyrstur íslenskra þjálfara, og um leið hjálpaði hann Aroni Pálmarssyni að bæta sitt met því Aron er eini íslenski handboltamaðurinn sem hefur orðið þýskur meistari þrjú ár í röð. Með í för eins og í fyrra var Guðjón Valur Sigurðsson, sem var einnig að vinna meistaratitil þriðja árið í röð, tveir þeir síðustu komu með Kiel en þann fyrsta vann hann í Danmörku með AG vorið 2012.

Sigur Kiel er magnað afrek hjá Alfreð á þessu „millibilsári“ eftir að liðið missti heimsklassaleikmennina Thierry Omeyer, Daniel Narcisse, Momir Ilic og Marcus Ahlm. „Það er ótrúlegt að ná þessu þrátt fyrir þennan missi. Frá því að við töpuðum fyrir Löwen þá höfum við spilað stórkostlega vörn og verið í miklum ham,“ er haft eftir Guðjóni Val í staðarblaðinu í Kiel.

Alfreð var strax farinn að hugsa um næsta verkefni um næstu helgi og setti sínum mönnum strangar reglur. Hann leyfði bara tvo bjóra á mann í stuttri sigurhátíð í miðbæ Kiel og skipulagði æfingu fyrir hádegi daginn eftir. Undirbúningurinn fyrir Meistaradeildina hófst því strax. „Ef menn hefðu farið að fagna núna þá ættum við enga möguleika á því að vinna um næstu helgi,“ sagði Alfreð.

Vísir/Getty
Flestir Þýskalandsmeistaratitlar Íslendinga:

Íslenskir þjálfarar

6 - Alfreð Gíslason

með Magdeburg 2001

með Kiel 2009, 2010, 2012, 2013, 2014

1 - Jóhann Ingi Gunnarsson

með Essen 1987



Íslenskir leikmenn

4 - Aron Pálmarsson

með Kiel 2010, 2012, 2013, 2014

2- Alfreð Gíslason

með Essen 1986, 1987

2 - Guðjón Valur Sigurðsson

með Kiel 2013, 2014

1 - Axel Axelsson

með Dankersen 1977

1 - Ólafur H. Jónsson

með Dankersen 1977

1 - Kristján Arason

með Gummersbach 1988

1 - Ólafur Stefánsson

með Magdeburg 2001




Fleiri fréttir

Sjá meira


×