Handbolti

Björgvin Páll verður í lykilhlutverki

Kristinn Páll Teitsson skrifar
Aron vill að strákarnir verði einbeittari í leiknum og reyni að gefa ekki kost á hraðaupphlaupum.
Aron vill að strákarnir verði einbeittari í leiknum og reyni að gefa ekki kost á hraðaupphlaupum. Fréttablaðið/Daníel
Ísland mætir Bosníu í Laugardalshöll á morgun í hreinum úrslitaleik upp á sæti á heimsmeistaramótinu sem fer fram í Katar á næsta ári. Ísland tapaði fyrri leiknum 33-32 úti í Bosníu sem gerir það að verkum að íslenska liðið þarf sigur.

„Við stefnum auðvitað bara á sigur á morgun, við erum búnir að undirbúa okkur vel. Við fórum yfir fyrri leikinn og það er margt sem má laga úr honum. Þeir refsuðu okkur of oft í fyrri leiknum,“ sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari Íslands, þegar Fréttablaðið heyrði í honum.

„Við spiluðum vel lengst af en þeir refsuðu okkur fyrir öll mistök, sérstaklega í seinni hálfleik. Við þurfum að verjast betur gegn hraðaupphlaupunum. Við spiluðum vel en á lokakaflanum gerum við of mikið af mistökum,“ segir Aron. Hann var ánægður með sóknarleikinn í leiknum en óánægður með spilamennskuna á hinum enda vallarins.

„Við getum bætt okkur bæði varnarlega og í markvörslu og það er markmiðið á sunnudaginn. Við verðum að vera einbeittir og koma inn í þetta af krafti. Bosníumenn eru svo fljótir að refsa þegar maður gerir einföld mistök og við verðum að verjast því betur í leiknum,“ segir Aron sem hélt sig við Björgvin Pál Gústavsson í leiknum þrátt fyrir að Björgvin hefði ekki fundið sig í leiknum úti í Bosníu.

„Hann fékk á sig mörg mörk en varði alltaf af og til bolta. Við héldum okkur við Björgvin þar sem við vildum ekki setja kaldan og óreyndan markmann inn. Bjöggi á það til að stíga upp á mikilvægustu stundunum og koma með lykilmarkvörslu rétt eins og hann gerði á lokamínútum leiksins. Þá varði hann þrjú skot á stuttum tíma sem var okkur gríðarlega mikilvægt,“ segir Aron. Vonast er til þess að Aron Pálmarsson geti tekið þátt í leiknum en ákvörðun verður tekin eftir æfingu í dag.

„Hann fann eitthvað til eftir æfinguna í gær en við verðum að bíða. Hann er góður leikmaður, bæði í vörn og sókn og er okkar liði gríðarlega mikilvægur,“ sagði Aron en ákvörðun um þátttöku Arons Pálmarssonar verður tekin í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×