Sport

Aníta vs. Poistogova: Taka tvö

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aníta hleypur til úrslita í Prag klukkan 14:15 í dag.
Aníta hleypur til úrslita í Prag klukkan 14:15 í dag. vísir/daníel
Sem kunnugt er tryggði Aníta Hinriksdóttir sér í gær sæti í úrslitum í 800 metra hlaupi á EM innanhúss í frjálsum íþróttum sem haldið er í Prag.

Aníta kom þriðja í mark í fyrri undanúrslitariðlinum, á eftir Selinu Büchel frá Sviss og Anastasiu Bazdyrevu frá Rússlandi.

Sú síðarnefnda var svo dæmd úr leik eftir hlaupið fyrir að stíga út fyrir hlaupabrautina er hún fór fram úr Anítu á lokasprettinum. Hin breska Jenny Meadows, sem kom upphaflega fjórða í mark, tók sæti Bazdyrevu í úrslitunum.

Í hinum riðlinum komust Natalija Lupu frá Úkraínu, Joanna Jószwik frá Póllandi og Ekaterina Poistogova frá Rússlandi áfram en sú síðastnefnda var með Anítu í riðli í undanrásunum og var sú eina af þeim 12 sem komust áfram í undanúrslitin sem var með betri tíma en Aníta.

Poistogova er bronsverðlaunahafi frá ÓL 2012.vísir/afp
Poistogova kom í mark á 2:01,44 mínútum, 12 hundraðshlutum úr sekúndu á undan Anítu sem setti Íslands- og Evrópumet unglinga í undanrásunum.

Poistogova, sem er nýorðin 24 ára, vann til bronsverðlauna í 800 metra hlaupi á Ólympíuleikunum í London 2012, en þá kom hún í mark á 1:57,53 mínútu.

Besti tími hennar innanhúss er 2:00,73 mínútur sem er örlítið betri en besti tími Anítu sem er 2:01,56 mínútur sem hún náði í undanrásunum í Prag á föstudaginn.

Úrslitahlaupið hefst klukkan 14:15 í dag. Hægt er að fylgjast með beinni útsendingu frá mótinu hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir

Aníta: Ég vil ná gullinu eins og allar stelpurnar hér

Aníta Hinriksdóttir var tekin í viðtal fyrir heimasíðu evrópska frjálsíþróttasambandsins eftir að íslenska hlaupadrottningin tryggði sér sæti í undanúrslitunum með mjög flottu hlaupi í undanrásum 800 metra hlaups kvenna.

Aníta í úrslit | Kom í mark á 2:02,31

Aníta Hinriksdóttir komst nú rétt í þessu í úrslit í 800 metra hlaupi á Evrópumeistaramótinu í frjálsum íþróttum innanhúss í Prag.

Aníta gæti verið nálægt verðlaunapallinum í Prag

Aníta Hinriksdóttir hefur keppni í dag á sínu fjórða stórmóti fullorðinna. Þjálfarinn Gunnar Páll Jóakimsson er bjartsýnn á gengi hennar á EM í Prag og segir Anítu vera reynslunni ríkari frá fyrri stórmótum sínum.

Aníta tekin í lyfjapróf eftir methlaupið sitt

Aníta Hinriksdóttir setti nýtt Íslands- og Evrópumet í dag þegar hún tryggði sér með glæsibrag sæti í undanúrslitunum í 800 metra hlaupi kvenna á EM innanhúss í Prag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×