Handbolti

Eskilstuna Guif í slæmum málum eftir annað tapið í röð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Ævar Ingólfsson.
Atli Ævar Ingólfsson. Mynd/Heimasíða Guif
Íslendingaliðið Eskilstuna Guif þarf að vinna þrjá leiki í röð til að komast í úrslitaleikinn um sænska meistaratitilinn eftir tap á heimavelli í kvöld.

Eskilstuna Guif tapaði þá 22-26 á móti Alingsås HK en Alingsås-liðið vann stórsigur í fyrsta leiknum og vantar því bara einn sigur í viðbót til að komast áfram.

Landsliðsmarkvörðurinn Aron Rafn Eðvarðsson varði ekki eitt skot í leiknum en öll átta skotin sem hann fékk á sig höfnuðu í markinu. Hinn markvörður liðsins, Herdeiro Lucao varði 5 af 22 skotum sem komu á hann.  

Línumaðurinn Atli Ævar Ingólfsson skoraði fjögur mörk úr fimm skotum og var annar markahæsti leikmaður Guif í leiknum.

Guif byrjaði illa, lenti 8-4 undir eftir fimmtán mínútur, en var bara einu marki undir í hálfleik, 12-11.

Alingsås vann fyrstu ellefu mínútur seinni hálfleiksins 8-3 og komst sex mörkum yfir. Þann mun brúaði Guif-liðið aldrei.

Lærisveinar Kristjáns Andréssonar eiga mjög erfitt verkefni fyrir höndum enda næsti leikur á heimavelli Alingsås þar sem Guif tapaði fyrsta leiknum með níu mörkum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×