Handbolti

Aron kveður með titli í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Andy Schidt var kjörinn bestur en Aron verður meistari.
Andy Schidt var kjörinn bestur en Aron verður meistari. vísir/getty
Lokaumferðin í þýsku 1. deildinni í handbolta fer fram í heild sinni í kvöld, en allir leikirnir hefjast klukkan 18.00.

Nokkuð ljóst er að Kiel, undir stjórn Alfreðs Gíslasonar, fagnar meistaratitlinum í kvöld, en ekkert á að geta komið í veg fyrir það.

Kiel er með tveggja stiga forskot á Rhein-Neckar Löwen fyrir lokaumferðina og nægir því jafntefli gegn Lemgo í kvöld til að gulltryggja titilinn. Lemgo er í 14. sæti með 27 stig.

Kiel er með svo mikið betri markatölu að Alexander Petersson, Stefán Sigurmannson og félagar eiga í raun ekki fræðilegan möguleika.

Til að Ljónin verði meistarar þurfa þau að vinna og Kiel að tapa. Þá þarf Löwen að vinna upp 25 marka mun sem Kiel hefur í forskot.

Löwen á fyrir höndum erfiðan útileik gegn lærisveinum Geirs Sveinssonar í Magdeburg, en þeir eru búnir að tryggja sér Evrópusæti. Frábærlega gert hjá Geir á sinni fyrstu leiktíð.

Vinni Kiel í kvöld, eins og allt bendir til, fagnar liðið sínum 20. meistaratitli í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport HD. Útsending hefst klukkan 17.55.

Þetta er síðasti leikur Arons Pálmarssonar sem leikmaður Kiel, en farsælli dvöl hans hjá liðinu lýkur eftir tímabilið. Hann gengur í raðir Veszprém í Ungverjalandi í sumar.

Aron verður meistari í fimmta sinn í kvöld og Alfreð í sjötta sinn, en hann er búinn að vinna Þýskalandsmeistaratitilinn fimm sinnum á fyrstu sex árunum hjá Kiel.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×