Handbolti

Nítján ára landslið Íslands vann Evrópumótið

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ómar Ingi Magnússon varð markahæsti leikmaður Íslands á mótinu.
Ómar Ingi Magnússon varð markahæsti leikmaður Íslands á mótinu. vísir/vilhelm
Íslenska landsliðið í handbolta karla, skipað leikmönnum nítján ára og yngri, vann í kvöld sigur á opna Evrópumeistaramótinu sem fram fór í Gautaborg. Liðið tryggði sér sigur með því að leggja heimamenn að velli 31-29.

Íslenska liðið var að vinna þetta mót í fyrsta sinn en það er haldið í kringum Partille Cup mótið í Gautaborg.

Framan af leiknum eltu drengirnir andstæðinginn og voru mest fjórum mörkum undir. Staðan í hálfleik var 13-10. Þegar leið á síðari hálfleikinn rankaði íslenska liðið við sér og náði að jafna í 19-19. Smám saman seig liðið fram úr og náði þriggja marka forystu þegar mest lét.

Undir lokin gerðu Svíar harða atlögu að strákunum og náðu að minnka muninn í eitt mark en nær komust þeir ekki. Íslenska liðið hélt út og er því sigurvegari.

Egill Magnússon, sem hafði verið hálfmeiddur allt mótið, fór á kostum í leiknum og skoraði tíu mörk. Valsarinn Ómar Ingi Magnússon var næstur honum en hann skoraði átta. Ómar var markahæsti maður Íslands á mótinu en hann skoraði 36 mörk á því.

Ómar Ingi var valinn besti leikstjórnandi mótsins og Eyjamaðurinn Hákon Daði Styrmisson valinn besti vinstri hornamaður mótsins.

Einar Guðmundsson og Einar Andri Einarsson eru þjálfarar íslenska liðsins.



Ísland - Svíþjóð 31-29 (13-16)

Mörk Íslands í leiknum: Egill Magnússon 10, Ómar Ingi Magnússon 8, Óðinn Þór Ríkharðsson 3, Kristján Örn Kristjánsson 3, Hákon Styrmisson 2, Arnar freyr Arnarsson 2, Aron Pálsson 1, Birkir Benediktsson 1.

Að neðan má sjá myndband frá vefsíðunni fimmeinn.is sem sýnir bikarinn fara á loft í leikslok.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×