Innlent

Bjarni hætti við að hjóla í bankana

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Bjarni Benediktsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins.
Bjarni Benediktsson á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. VÍSIR
Svo virðist vera sem Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafi hætt við að hjóla af krafti í bankana og eigendur þeirra í setningarræðu sinni á landsfundi Sjálfstæðisflokksins. Í útgáfu ræðunnar sem birt er á vef Sjálfstæðisflokksins er að finna ummæli sem Bjarni lét ekki falla þegar hann flutti hana á fundinum.

„Bankarnir geta ekki leyft sér að láta eins og þeir starfi á öðru landi en íslenskur almenningur,“ er meðal þess sem Bjarni sagði ekki í ræðunni, en er í þeim texta sem birtur er á vef flokksins. „Það er ætlast til betri vinnubragða, meira gegnsæis og heilbrigðrar framgöngu í þágu þjóðarhags,“ segir einnig í ræðutextanum sem ekki var fluttur.

Bjarni segir í ræðutextanum á vef flokksins að hann hafi ekki slegið þá hugmynd af borðinu að aðskilja viðskipta- og fjárfestingabankastarfsemi, líkt og hugmyndir eru uppi um á þingi. Fyrir liggur tillaga stjórnarandstöðuþingmanna um að ráðast í slíkan aðskilnað en hugmyndin hefur áður verið flutt á þingi án þess að umræða um hana klárist.

Bjarni talaði þess í stað um að bankarnir væru orðnir of stórir og að hann hefði fullan skilning á því að fólk hafi áhyggjur af því að einhver mistök yrðu gerð á leiðinni við þær breytingar fjármálakerfisins sem liggi fyrir.

Fleiri frávik voru í flutningi ræðunnar á landsfundi og þeirri sem birt er á vef flokksins en hér að neðan má sjá Bjarna flytja ræðuna á föstudaginn. Ræðuna á vef flokksins má lesa hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×