Innlent

Leggja fram tillögu um rannsókn á Kleppjárnsreykjum

Bjarki Ármannsson skrifar
Meðal flutningsmanna tillögunnar er Katrín Jakobsdóttir, sem kallaði eftir rannsókn á Kleppjárnsreykjum í óundirbúnum fyrirspurnartíma í síðasta mánuði.
Meðal flutningsmanna tillögunnar er Katrín Jakobsdóttir, sem kallaði eftir rannsókn á Kleppjárnsreykjum í óundirbúnum fyrirspurnartíma í síðasta mánuði. Vísir
Fimmtán þingmenn stjórnarandstöðuflokkanna á Alþingi hafa lagt fram þingályktunartillögu um að vistheimilisnefnd kanni starfsemi á vinnuhælinu á Kleppjárnsreykjum á árunum 1942 og 1943. Jafnframt hlutist forsætisráðherra til um að rannsakað verði hvort íslensk yfirvöld hafi framið mannréttindabrot við að sporna við samskiptum íslenskra kvenna við erlenda hermenn í kjölfar hernámsins árið 1940.

Starfsemin á Kleppjárnsreykjum hefur verið talsvert til umræðu undanfarið í tengslum við nýja heimildarmynd sem fjallar um ungar íslenskar konur sem voru fordæmdar í dagblöðum og margar sendar á vinnuhælið fyrir að hafa haft samneyti við setulið Bandaríkjahers. Alma Ómarsdóttir fréttamaður gerði myndina en hún segir gríðarleg mannréttindabrot hafa átt sér stað við yfirheyrslur kvennanna og vistun á Kleppjárnsreykjum.

Þá hefur Þór Whitehead sagnfræðiprófessor einnig farið yfir skjöl um þessar aðgerðir stjórnvalda, sem voru gerð opinber að hluta árið 2012, og sagt þær víðtækustu njósnir um einkalíf manna hér á landi.

Alma Ómarsdóttir gerði heimildarmynd um Kleppjárnsreyki, sem komið hefur af stað miklu umtali.Vísir/Pjetur
Ekki of seint að biðjast opinberlega afsökunar

Meðal flutningsmanna tillögunnar er Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, sem kallaði eftir rannsókn á Kleppjárnsreykjum í óundirbúnum fyrirspurnartíma í síðasta mánuði. Fyrsti flutningsmaður er Heiða Kristín Helgadóttir úr Bjartri framtíð.

„Brýna nauðsyn ber til þess að upplýst verði með opinberri rannsókn hvað raunverulega átti sér stað á Kleppjárnsreykjum og við lögreglu­rannsóknir á ungum konum í kjölfar komu erlendra herliða til landsins,“ segir meðal annars í greinargerð tillögunnar.

„Enn eimir af fordómum í garð þeirra kvenna sem voru viðfangsefni þessara rannsókna og sættu jafnvel frelsissviptingu í kjölfarið. Sumar þessara kvenna eru enn á lífi og ekki of seint að þeim verði veitt opinber afsökunarbeiðni.“


Tengdar fréttir

Njósnir og ofsóknir gegn saklausum stúlkum

Alma Ómarsdóttir hefur gert heimildarmyndina Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum – Lauslæti og landráð. Í myndinni er fjallað um gróf mannréttindabrot af hálfu íslenskra stjórnvalda gagnvart ungum konum á stríðsárunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×