Handbolti

Arnór: Haukarnir komu mér ekki á óvart

Ingvi Þór Sæmundsson í Schenker-höllinni skrifar
Arnór í kröppum dansi í kvöld.
Arnór í kröppum dansi í kvöld. vísir/stefán
Arnór Atlason, leikmaður Saint Raphael, var ánægður að fara með sigur, 28-29, frá Ásvöllum eftir hörkuleik við Íslandsmeistara Hauka í 3. umferð EHF-bikarsins.

Frakkarnir leiddu með fimm mörkum í hálfleik, 10-15, en Haukar spiluðu frábærlega í seinni hálfleikinn og voru hársbreidd frá því að ná jafntefli gegn liðinu sem situr í 2. sæti frönsku úrvalsdeildarinnar.

"Það var einhver værukærð hjá okkur," sagði Arnór um seinni hálfleikinn sem Haukar unnu 18-14.

"Þeir skora 18 mörk og það á ekki að vera hægt, gegn hvaða liði sem er. Við erum svekktir með það en ég er ánægður með að mínir menn fengu að sjá alvöru handbolta á Íslandi.

"Þetta var hörkuleikur og við þurfum bara að fara heim og vinna seinni leikinn," sagði landsliðsmaðurinn ennfremur en hann skoraði sex mörk í leiknum.

Arnór sagði að mótspyrna Hauka hafi ekki komið sér á óvart.

"Nei, alls ekki. Ég reiknaði með hörkuleik. En eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, þá vonaði ég að þetta færi ekki í svona spennuleik. En við erum ánægðir með sigurinn," sagði Arnór sem hrósaði Haukaliðinu fyrir frammistöðu þess í kvöld.

"Þeir spiluðu mjög vel og voru vel skipulagðir. Það var kraftur í þeim og þetta er flott lið."

Seinni leikurinn fer fram í Saint Raphael 29. nóvember. Arnór býst einnig við hörkuleik þá.

"Ég á von á því sama. Við þurfum að gefa allt í þetta. Það er mikilvægt fyrir okkur að komast í riðlakeppnina," sagði Arnór að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×