Handbolti

Sjáðu hvernig Löwen komst á ótrúlegan hátt í undanúrslit bikarsins | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Alexander Petersson og Patrick Groetzki fagna.
Alexander Petersson og Patrick Groetzki fagna. vísir/getty
Alexander Petersson, Stefán Rafn Sigurmannsson og félagar þeirra í Rhein-Neckar Löwen komust á ævintýralegan hátt í undanúrslit þýska bikarsins í handbolta í gærkvöldi.

Liðið vann sigur á útivelli gegn Melsungen, 22-21, en sigurmarkið skoraði hornamaðurinn Uwe Gensheimer úr vítakasti sem Alexander Petersson hálfpartinn fiskaði við sinn eigin vítateig.

Í stöðunni 21-21 var Melsungen í sókn og reyndi Michael Muller skot á sinn gamla liðsfélaga Mikael Appelgren í marki Ljónanna þegar sjö sekúndur voru eftir.

Appelgren varði skotið og boltinn barst til Alexanders en dómarinn var þó búinn að dæma línu á Marino Maric, leikmann Melsungen, sem sótti boltann inn í teiginn.

Alexander ætlaði að taka boltann og koma honum í leik en Timm Schneider var á öðru máli. Hann tók boltann upp og hljóp með hann til baka nokkur skref áður en hann lagði boltann niður.

Þar sem Schneider var bara að reyna að tefja var dæmt á hann vítakast og rautt spjald samkvæmt nýju reglunum þar sem hann gerðist brotlegur á síðustu 30 sekúndunum. Hann var vitaskuld bara að reyna að hindra Ljónin í að skora.

Uwen Gensheimer, ein besta vítaskytta heims, fór á vítapunktinn og skoraði af öryggi um leið og leiktíminn rann út og brast út mikill fögnuður hjá toppliði Löwen sem komst með sigrinum í undanúrslit þýska bikarsins.

Þetta ævintýralegu atburðarás má sjá í myndbandinu hér að neðan.

7-Meter-Entscheidung für die Löwen

Hier die heftig diskutierte Schlussphase von Rhein-Neckar Löwen - MT Melsungen zum Anschauen. Mehr zum Spiel, und vor allem die Interviews: http://on.sport1.de/228p9Zp

Posted by SPORT1 Handball on Wednesday, December 16, 2015



Fleiri fréttir

Sjá meira


×