Sport

Óskar Bjarni: Gekk vel hjá strákunum að kúpla sig í gegnum breytingarnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Óskar Bjarni þjálfar bæði lið Vals út tímabilið.
Óskar Bjarni þjálfar bæði lið Vals út tímabilið. vísir/Ernir
„Það er alltaf gaman að byrja á ný. Það ríkir mikil eftirvænting hjá okkur,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson, þjálfari Valsmanna í Olís-deild karla í handbolta, en deildin hefst á ný eftir 48 daga HM-frí í kvöld. Reykjavíkurliðin Valur og Fram mætast í fyrsta leik 17. umferðar í Vodafone-höllinni klukkan 19.30.

„Mér líst vel á þetta. Það eru allir heilir og ferskir. Við vorum á góðum skriði fyrir fríið áður en við töpuðum síðasta leiknum. Þessi deild er samt jöfn og tilfinningin er að allir geti reytt stig af öllum,“ segir Óskar Bjarni.

Hann hóf tímabilið sem aðstoðarmaður Jóns Kristjánssonar sem var ráðinn þegar Ólafur Stefánsson ákvað óvænt að fara í frí. Óskar stýrir nú bæði karla- og kvennaliðum félagsins út tímabilið, en Alfreð Örn Finnsson er kominn heim úr atvinnumennsku og aðstoðar hann hjá konunum.

„Það mun reyna á mig. Það gekk frábærlega hjá strákunum að kúpla sig í gegnum breytingarnar sem voru „sjokk“ fyrir þá. Jón var mjög góður og strákarnir gerðu þetta mjög vel. Nú er undir mér og okkur komið að viðhalda því,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×