Raúl Jiménez, Emile Smith Rowe og Reiss Nelson skoruðu mörk Fulham sem er með átta stig í 8. sæti deildarinnar. Harvey Barnes skoraði fyrir Newcastle sem er í 6. sætinu með tíu stig.
Aston Villa kom til baka gegn Wolves og vann 3-1 sigur í leik liðanna á Villa Park. Matheus Cunha kom Úlfunum yfir á 25. mínútu og þannig var staðan allt fram á 73. mínútu þegar Ollie Watkins jafnaði fyrir Villa-menn. Þeir gengu svo á lagið og Ezri Konsa og Jhon Durán bættu við mörkum.
Með sigrinum komst Villa upp í 3. sæti deildarinnar en Wolves er með eitt stig á botninum.
Everton er enn án sigurs en liðið gerði 1-1 jafntefli við Leicester City á útivelli. Iliman Ndiaye kom Everton yfir á 12. mínútu en Stephy Mavididi jafnaði fyrir Leicester á 73. mínútu. Refirnir eru með þrjú stig í 15. sæti deildarinnar en strákarnir hans Seans Dyche í nítjánda og næstneðsta sæti með eitt stig.
Fimm mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma þegar Sam Morsy jafnaði fyrir Ipswich Town gegn Southampton í nýliðaslag á suðurströndinni. Lokatölur 1-1.
Tyler Dibling kom Dýrlingunum yfir strax á 5. mínútu og það virtist ætla að tryggja þeim fyrsta sigurinn á tímabilinu en Morsy jafnaði fyrir traktorstrákana með frábæru skoti fyrir utan vítateig á 95. mínútu. Ipswich er með þrjú stig en Southampton eitt.