Ég hata þig en ég elska þessa bók Magnús Guðmundsson skrifar 5. mars 2015 12:00 „Við erum ólíkir einstaklingar sem sjáum sögur sömu augum,“ segir Anders Roslund um þá félaga sem skrifuðu saman glæpasöguna Dansað við björninn sem byggir á fjölskyldusögu Stefans Thunberg. Visir/GVA Glæpasögur sem byggðar eru á fjölskyldusögu höfundar eru ekki á hverju strái. Ein slík hefur þó farið sem eldur í sinu um heim glæpasagna að undanförnu og sér ekki fyrir endann á velgengni bókarinnar Dansað við björninn eftir Svíana Anders Roslund og Stefan Thunberg sem voru staddir hér á landi í vikunni. Anders Roslund er margverðlaunaður rannsóknarblaðamaður og lofaður spennusagnahöfundur á síðustu árum. Stefan Thunberg er á meðal eftirsóttustu handritshöfunda Norðurlandanna og eftir hann liggja þekkt handrit að bæði kvikmyndum og sjónvarpsþáttum en þetta er hans fyrsta bók. Sagan sem birtist lesendum í Dansað við björninn er engin venjuleg glæpasaga. Hún er fjölskyldusaga Stefans Thunberg sem hefur gengið með hana í maganum og á sálinni í tæp tuttugu ár. Stefan er næstelstur fjögurra bræðra sem snemma á tíunda áratug síðustu aldar héldu Svíþjóð í heljargreipum með röð vopnaðra rána sem minntu fremur á bandaríska kvikmynd en skandinavískan veruleika. Á þeim tíma var Stefan í listaskóla í Stokkhólmi en hann var engu að síður fyllilega meðvitaður um það sem bræður hans aðhöfðust.Aðeins röð átaka „Við komum úr skemmdu umhverfi með ofbeldisfullan og alkóhólíseraðan föður gínandi yfir öllu. Fyrir bræður mína var þetta leið út. Að verða sér úti um nægilega mikið af peningum til þess geta lifað góðu lífi. Ég vissi alveg hvað var í gangi á þessum tíma en það var aldrei inni í myndinni að kjafta frá þessu, slíkt gengi þvert á allt sem okkur hafði verið innprentað. En svo líða þessi ár og við Anders kynnumst og náum saman um þetta verkefni. Ég hefði aldrei getað þetta nema með honum, þá hefði þetta aldrei orðið almennileg bók – bara röð af átökum án orsaka og afleiðinga.“ Þeir Stefan og Anders eru ólíkir einstaklingar. Engu að síður bendir Anders á að þeir sjái sögur með sömu augum og að það hafi gert þeim kleift að vinna saman. „Við gerðum okkur grein fyrir því að við erum tengdari en við áttum von á. Ég kem líka af heimili með ofbeldisfullum föður og þetta mótar mann. Hefur mótað okkur báða, gert okkur að skapmönnum og sett í okkur galla sem við höfum þurft að vinna í að losa okkur við. Svo var ég líka í hringiðu þessarar sögu á sínum tíma sem fréttamaður og það sjónarhorn nýtist okkur. Í ekki stærra samfélagi en er í kringum glæpasögur og kvikmyndir í Svíþjóð var svo óhjákvæmilegt annað en að leiðir okkar lægju saman að endingu.“Vopnaspjall í eldhúsinu Þeir Anders og Stefan eru sammála um að til þess að geta formað bók úr þessari ofbeldisfullu fjölskyldusögu hafi farið best á að taka hana í sundur og raða saman brotunum. „Ég fór og sótti lögregluskýrsluna og hún var upp á 6.000 síður,“ segir Anders. „Tók þetta ferlíki í fangið og burðaðist með þetta upp á fimmtu hæð í litlu íbúðina mína í Stokkhólmi þar sem Stefan beið eftir mér. Mér leið eins og ég væri að dragnast með lík upp allar tröppurnar og inn í íbúð þar sem ég lét þetta vaða í gólfið. Stefan horfði á aðfarirnar og hrúguna og gekk svo þegjandi út. Ég gat vel skilið að þetta væri erfitt og beið bara þangað til hann var tilbúinn að koma að þessu og það kom að því nokkrum vikum seinna. Veruleikinn sem birtist okkur þarna og í upplifun Stefans er grunnurinn að öllu í þessari bók – stóri sannleikurinn.“ Þó svo Stefan hafi aldrei verið gerandi eða aðili að því sem átti sér stað var hann alltaf nálægur. „Það er súrrealískt í dag að hugsa til þess að þegar ég kom í heimsókn þá heyrði ég í bræðrum mínum tala um vopn og ránsáætlanir yfir nokkrum bjórum við eldhúsborðið. Þeir kölluðu mig listamanninn og glottu aðeins að mér en annað var það ekki. Einu sinni gekk ég inn á þá þar sem þeir sátu og voru að horfa á sjónvarpsfréttir um ránin og þeir ræddu þetta bara eins og þeir væru að tala um bíómynd. Þeir vissu að ég vissi en það þurfti ekki að orða neitt.“vopnað rán Ein af 6.000 blaðsíðum lögregluskýrslunnar um vopnuðu ránin sem bræður Stefans frömdu og sagt er frá í Dansað við björninn.Skapandi og snjallir bræður Það var svo daginn fyrir jól, veturinn sem þetta stóð sem hæst, að Stefan kom heim í lok dags og kveikti á sjónvarpinu. Þar var verið að fylgjast með eltingarleik lögreglunnar við glæpamennina sem höfðu skekið Svíþjóð. Þeir voru vopnaðir og í stórum bíl, fastir í skurði í byljandi sænskum vetrarstormi, tilbúnir í átök. „Mesta áfallið var að sjá að pabbi var með þeim. Þeir höfðu tekið upp á því að sættast við kallinn og taka hann með í næsta rán. Það var áfall vegna þess að ég veit hvaða mann hann hefur að geyma og ég efaðist ekki um að hann mundi aldrei gefast upp. Ég var viss um að bræður mínir mundu deyja þarna í skurðinum í skotbardaga við lögregluna og við þá tilhugsun hrundi ég. Gat ekki meir. Sofnaði og vaknaði endurnærður á fallegum aðfangadegi sannfærður um að þetta hefði bara verið draumur. Gekk út á horn til þess að ná mér í morgunverð og þá sá ég fyrirsagnir blaðanna og raunveruleikinn skall á mér að nýju.“ Anders bendir á hversu mikill og þungbær þessi raunveruleiki getur verið. „Tengsl Stefans við bræður sína eru svo sterk og þetta er svo náið að stundum þurftum við að kljúfa persónur og skapa þær að nýju til þess að ná utan um verkefnið. Þessi rán voru svo hrottaleg en um leið hugmyndarík og snjöll. Stefan er greinilega ekki eini skapandi einstaklingurinn í þessari fjölskyldu – hann fann því bara jákvæðari farveg.“ Við erum vinir í dag „Núna þegar ég er loksins búinn að fara í gegnum þetta allt er þessi vanmáttartilfinning ekki eins ráðandi,“ segir Stefan og leggur áherslu á að við skrifin hafi í raun tekist á tveir pólar. „Annars vegar var þessi inngróna tilfinning um að maður megi aldrei kjafta og hins vegar mantran okkar Anders um að brjóta þetta allt niður í sögu og skáldskap. Það sem gerði mér þetta kleift var að móðir mín gaf mér leyfi og hjálpaði mér í gegnum þetta. Hún sagði: „Nú er komið að þér Stefan, þetta er þinn tími.“ Það breytti öllu. Hún er löngu farin frá föður mínum og spjarar sig í dag og það gera bræður mínir líka. Ég hafði samband við þá þegar bókin var klár til prentunar. Það var tveimur dögum fyrir jól, réttum tuttugu árum eftir að þeir náðust og ég fór með eitt handrit til þeirra svo þeir gætu lesið þetta fyrstir allra. Ég fór heim og beið. Fimmtán tímum síðar fékk ég símtal frá yngri bróður mínum Felix. Hann öskraði í símann: „Ég fokking hata þig en ég elska þessa bók!“ Síðan skellti hann á og við töluðum ekki saman í ár. Hann þurfti sinn tíma og við bræðurnir erum allir vinir í dag.“ Menning Mest lesið Einhleypan: „Borða, ríða, elska“ Makamál Laufey naut lífsins með Ariönu Grande Tónlist Stjörnulífið: „Einhver þarna uppi heldur með mér“ Lífið Frægir flugfreyjubúningar í útgáfuhófi Loftleiðabókar Lífið Lifa hægara lífi í New York en á Íslandi Lífið Bein útsending: Vikulöng þrekraun Einars Lífið Hrafnhildur hafnaði í öðru sæti í Miss Earth Lífið Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Menning Niðurgangurinn á Þingvöllum þaggaður niður Lífið Nammimaðurinn er allur Lífið Fleiri fréttir Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira
Glæpasögur sem byggðar eru á fjölskyldusögu höfundar eru ekki á hverju strái. Ein slík hefur þó farið sem eldur í sinu um heim glæpasagna að undanförnu og sér ekki fyrir endann á velgengni bókarinnar Dansað við björninn eftir Svíana Anders Roslund og Stefan Thunberg sem voru staddir hér á landi í vikunni. Anders Roslund er margverðlaunaður rannsóknarblaðamaður og lofaður spennusagnahöfundur á síðustu árum. Stefan Thunberg er á meðal eftirsóttustu handritshöfunda Norðurlandanna og eftir hann liggja þekkt handrit að bæði kvikmyndum og sjónvarpsþáttum en þetta er hans fyrsta bók. Sagan sem birtist lesendum í Dansað við björninn er engin venjuleg glæpasaga. Hún er fjölskyldusaga Stefans Thunberg sem hefur gengið með hana í maganum og á sálinni í tæp tuttugu ár. Stefan er næstelstur fjögurra bræðra sem snemma á tíunda áratug síðustu aldar héldu Svíþjóð í heljargreipum með röð vopnaðra rána sem minntu fremur á bandaríska kvikmynd en skandinavískan veruleika. Á þeim tíma var Stefan í listaskóla í Stokkhólmi en hann var engu að síður fyllilega meðvitaður um það sem bræður hans aðhöfðust.Aðeins röð átaka „Við komum úr skemmdu umhverfi með ofbeldisfullan og alkóhólíseraðan föður gínandi yfir öllu. Fyrir bræður mína var þetta leið út. Að verða sér úti um nægilega mikið af peningum til þess geta lifað góðu lífi. Ég vissi alveg hvað var í gangi á þessum tíma en það var aldrei inni í myndinni að kjafta frá þessu, slíkt gengi þvert á allt sem okkur hafði verið innprentað. En svo líða þessi ár og við Anders kynnumst og náum saman um þetta verkefni. Ég hefði aldrei getað þetta nema með honum, þá hefði þetta aldrei orðið almennileg bók – bara röð af átökum án orsaka og afleiðinga.“ Þeir Stefan og Anders eru ólíkir einstaklingar. Engu að síður bendir Anders á að þeir sjái sögur með sömu augum og að það hafi gert þeim kleift að vinna saman. „Við gerðum okkur grein fyrir því að við erum tengdari en við áttum von á. Ég kem líka af heimili með ofbeldisfullum föður og þetta mótar mann. Hefur mótað okkur báða, gert okkur að skapmönnum og sett í okkur galla sem við höfum þurft að vinna í að losa okkur við. Svo var ég líka í hringiðu þessarar sögu á sínum tíma sem fréttamaður og það sjónarhorn nýtist okkur. Í ekki stærra samfélagi en er í kringum glæpasögur og kvikmyndir í Svíþjóð var svo óhjákvæmilegt annað en að leiðir okkar lægju saman að endingu.“Vopnaspjall í eldhúsinu Þeir Anders og Stefan eru sammála um að til þess að geta formað bók úr þessari ofbeldisfullu fjölskyldusögu hafi farið best á að taka hana í sundur og raða saman brotunum. „Ég fór og sótti lögregluskýrsluna og hún var upp á 6.000 síður,“ segir Anders. „Tók þetta ferlíki í fangið og burðaðist með þetta upp á fimmtu hæð í litlu íbúðina mína í Stokkhólmi þar sem Stefan beið eftir mér. Mér leið eins og ég væri að dragnast með lík upp allar tröppurnar og inn í íbúð þar sem ég lét þetta vaða í gólfið. Stefan horfði á aðfarirnar og hrúguna og gekk svo þegjandi út. Ég gat vel skilið að þetta væri erfitt og beið bara þangað til hann var tilbúinn að koma að þessu og það kom að því nokkrum vikum seinna. Veruleikinn sem birtist okkur þarna og í upplifun Stefans er grunnurinn að öllu í þessari bók – stóri sannleikurinn.“ Þó svo Stefan hafi aldrei verið gerandi eða aðili að því sem átti sér stað var hann alltaf nálægur. „Það er súrrealískt í dag að hugsa til þess að þegar ég kom í heimsókn þá heyrði ég í bræðrum mínum tala um vopn og ránsáætlanir yfir nokkrum bjórum við eldhúsborðið. Þeir kölluðu mig listamanninn og glottu aðeins að mér en annað var það ekki. Einu sinni gekk ég inn á þá þar sem þeir sátu og voru að horfa á sjónvarpsfréttir um ránin og þeir ræddu þetta bara eins og þeir væru að tala um bíómynd. Þeir vissu að ég vissi en það þurfti ekki að orða neitt.“vopnað rán Ein af 6.000 blaðsíðum lögregluskýrslunnar um vopnuðu ránin sem bræður Stefans frömdu og sagt er frá í Dansað við björninn.Skapandi og snjallir bræður Það var svo daginn fyrir jól, veturinn sem þetta stóð sem hæst, að Stefan kom heim í lok dags og kveikti á sjónvarpinu. Þar var verið að fylgjast með eltingarleik lögreglunnar við glæpamennina sem höfðu skekið Svíþjóð. Þeir voru vopnaðir og í stórum bíl, fastir í skurði í byljandi sænskum vetrarstormi, tilbúnir í átök. „Mesta áfallið var að sjá að pabbi var með þeim. Þeir höfðu tekið upp á því að sættast við kallinn og taka hann með í næsta rán. Það var áfall vegna þess að ég veit hvaða mann hann hefur að geyma og ég efaðist ekki um að hann mundi aldrei gefast upp. Ég var viss um að bræður mínir mundu deyja þarna í skurðinum í skotbardaga við lögregluna og við þá tilhugsun hrundi ég. Gat ekki meir. Sofnaði og vaknaði endurnærður á fallegum aðfangadegi sannfærður um að þetta hefði bara verið draumur. Gekk út á horn til þess að ná mér í morgunverð og þá sá ég fyrirsagnir blaðanna og raunveruleikinn skall á mér að nýju.“ Anders bendir á hversu mikill og þungbær þessi raunveruleiki getur verið. „Tengsl Stefans við bræður sína eru svo sterk og þetta er svo náið að stundum þurftum við að kljúfa persónur og skapa þær að nýju til þess að ná utan um verkefnið. Þessi rán voru svo hrottaleg en um leið hugmyndarík og snjöll. Stefan er greinilega ekki eini skapandi einstaklingurinn í þessari fjölskyldu – hann fann því bara jákvæðari farveg.“ Við erum vinir í dag „Núna þegar ég er loksins búinn að fara í gegnum þetta allt er þessi vanmáttartilfinning ekki eins ráðandi,“ segir Stefan og leggur áherslu á að við skrifin hafi í raun tekist á tveir pólar. „Annars vegar var þessi inngróna tilfinning um að maður megi aldrei kjafta og hins vegar mantran okkar Anders um að brjóta þetta allt niður í sögu og skáldskap. Það sem gerði mér þetta kleift var að móðir mín gaf mér leyfi og hjálpaði mér í gegnum þetta. Hún sagði: „Nú er komið að þér Stefan, þetta er þinn tími.“ Það breytti öllu. Hún er löngu farin frá föður mínum og spjarar sig í dag og það gera bræður mínir líka. Ég hafði samband við þá þegar bókin var klár til prentunar. Það var tveimur dögum fyrir jól, réttum tuttugu árum eftir að þeir náðust og ég fór með eitt handrit til þeirra svo þeir gætu lesið þetta fyrstir allra. Ég fór heim og beið. Fimmtán tímum síðar fékk ég símtal frá yngri bróður mínum Felix. Hann öskraði í símann: „Ég fokking hata þig en ég elska þessa bók!“ Síðan skellti hann á og við töluðum ekki saman í ár. Hann þurfti sinn tíma og við bræðurnir erum allir vinir í dag.“
Menning Mest lesið Einhleypan: „Borða, ríða, elska“ Makamál Laufey naut lífsins með Ariönu Grande Tónlist Stjörnulífið: „Einhver þarna uppi heldur með mér“ Lífið Frægir flugfreyjubúningar í útgáfuhófi Loftleiðabókar Lífið Lifa hægara lífi í New York en á Íslandi Lífið Bein útsending: Vikulöng þrekraun Einars Lífið Hrafnhildur hafnaði í öðru sæti í Miss Earth Lífið Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Menning Niðurgangurinn á Þingvöllum þaggaður niður Lífið Nammimaðurinn er allur Lífið Fleiri fréttir Leikfélag Hafnarfjarðar lagt niður Víkingur Heiðar tilnefndur til Grammy-verðlauna Frambjóðendur, sjónvarpsstjörnur og gamlir félagar fögnuðu með Geir Setja upp árekstur og hefja saman rekstur „Þetta eru mjög vondir samningar við Storytel“ Varpa ljósi á mikilvægi og gæði íslenskrar hönnunar „Við þurfum öll að halda í barnið innra með okkur“ Menningarritstjóri ráðinn framkvæmdastjóri Fullt út úr dyrum þegar Eiríkur Bergmann kynnti ferðafélagann Tínu Hvað gerist þegar Laddi hittir Eirík Fjalar, Skrám og Elsu Lund? „Alltaf að fylgja hjartanu í stað þess að velja einföldu leiðina“ Usli og glæsileiki á Kjarvalsstöðum Valgeir sár og Bubbi og Bó hneykslaðir Stappfullt á eina stærstu menningarhátíð ársins Sjóðheitt menningarrými á Baldursgötu Asifa Majid hlýtur Vigdísarverðlaunin 2024 Bjarni Ben fagnaði 140 ára afmæli Listasafns Íslands Han Kang hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels Bein útsending: Hver hlýtur bókmenntaverðlaun Nóbels? „Þetta er móðgun gegn Íslandi“ Henti listaverkinu í ruslið Kúltúrkettir landsins létu sig ekki vanta í Portið „Hrátt háþróað krass, langt leitt krot“ Bjóða landsmönnum nauðbeygð til messu Allt í banönum á Brút Bríet lét sig ekki vanta á sýningaropnun Ynju Blævar Út um allar koppagrundir Alþingis: „Froðan flæðir endalaust, það er bara froða froða“ Sjá meira