Handbolti

Rúnar missir strákinn sinn í marga mánuði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Myndu/Heimasíða EHV Aue
Íslenski handboltamaðurinn Sigtryggur Daði Rúnarsson verður frá keppni í nokkra mánuði vegna hnémeiðsla og er þetta missir fyrir þýska liðið EHV Aue.

Sigtryggur Daði spilar fyrir föður sinn, Rúnar Sigtryggsson, og hefur gert það undanfarin tímabil. Rúnar tók við Aue árið 2012 og sonur hans skipti yfir ári síðar eftir að hafa spilað fyrst fyrir SG Nickelhütte Aue.

Sigtryggur meiddist á hægra hné á dögunum og er búist við því að hann verði frá í þrjá mánuði að minnsta kosti. Það er því ólíklegt að hann spili meira með liðinu í vetur.

Sigtryggur Daði er 19 ára leikstjórnandi sem hefur skorað 23 mörk í 10 leikjum með EHV Aue í þýsku b-deildinni á tímabilinu. Hann hefur nýtt 50 prósent skota sinna.

Hann er þó ekki eini íslenski leikmaður liðsins því þar spila einnig landsliðsmaðurinn Bjarki Már Gunnarsson, skyttan Árni Þór Sigtryggsson og markvörðurinn Sveinbjörn Pétursson.

Fjarvera Sigtryggs Daða næstu mánuði er enn eitt mótlætið sem Rúnar lendir í með liðinu á þessari leiktíð. EHV Aue hefur hækkað sig í töflunni undanfarin tímabil og endaði í sjötta sæti í fyrra.

EHV Aue er eins og er í sjötta sætinu með 11 sigra og 7 töp í 21 leik. Þrjú efstu liðin tryggja sér sæti í Bundesligunni og er Aue nú heilum tíu stigum frá þriðja sætinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×