Handbolti

Tvö bestu liðin mætast í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Valsarinn Geir Guðmundsson í leik gegn Haukum.
Valsarinn Geir Guðmundsson í leik gegn Haukum. Vísir
Bikarúrslitahelgin hófst með undanúrslitum kvenna og í kvöld er komið að körlunum. Einar Andri Einarsson, þjálfari Aftureldingar sem er í 3. sæti Olís-deildarinnar, þekkir vel til liðanna sem mætast í kvöld og Fréttablaðið fékk hann til að spá í spilin.

„Þetta er stórkostleg helgi og það verða ansi margir sem sitja heima með sárt ennið yfir að fá ekki að taka þátt í þessum leikjum,“ segir Einar. Fyrri leikur dagsins er á milli toppliðanna Vals og Hauka.

„Þarna eru tvö bestu lið vetrarins að mætast og þetta eru svipuð lið að mörgu leyti. Þau byggja á sterkum 6:0 vörnum og eru með frábæra markmenn. Það verður gaman að sjá hverjir ná markvörslunni betur á flot, hvort Morkunas loki eins og hann er búinn að vera að gera eða hvort Bubbi (Hlynur Morthens) taki einn af þessum leikjum sem hann klárar,“ segir Einar Andri,

Haukarnir kannski með tak á Val

„Haukarnir eru sigurstranglegri miðað við einvígi þessara liða. Þeir eru kannski með eitthvert tak á Val,“ segir Einar Andri en Haukarnir hafa unnið báða deildarleiki liðanna í vetur og unnu Val 3-0 í úrslitakeppninni síðasta vor.

„Liðin er bæði ógnarsterk og með frábæra leikmenn í öllum stöðum. Mér finnst samt fleiri leikmenn hjá Haukum vera að spila topptímabil, Janus (Daði Smárason), Adam (Haukur Baumruk) og (Giedrius) Morkunas. Ég myndi setja peninginn á Haukana,“ segir Einar Andri. Seinni leikurinn er á milli 1. deildar­liðs Stjörnunnar og liðs Gróttu sem hefur unnið þrjá af fjórum síðustu leikjum sínum í Olís-deildinni og hefur ekki tapað leik síðan löngu fyrir jól. Stjarnan hefur unnið 15 af 16 leikjum sínum í 1. deildinni í vetur.

Vísir
Pressan er á Gróttuliðinu

„Grótta er klárlega með sterkara lið og sterkari hóp. Pressan er líka á þeim. Þetta er krefjandi verkefni fyrir Gróttumenn að vera búnir að standa sig svona frábærlega o?g komast alla þessa leið en vera samt með pressuna á sér. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þeir ráða við þá pressu. Stjarnan er með færri góða leikmenn en þeir geta vel unnið þennan leik ef allt gengur upp hjá þeim,“ sagði Einar Andri.

„Ég myndi spá Gróttunni sigri en það getur allt gerst þarna,“ segir Einar Andri. En hvað með úrslitaleikinn?

65 prósent líkur

„Ég held að það horfi flestir á leik Hauka og Vals sem úrslitaleik. Liðin eru bæði með gríðarlega breidd og það hentar þeim mjög vel að spila með svona stuttu millibili. Grótta er búin að vera á það miklu flugi að undanförnu og ef við segjum að þeir klári Stjörnuna þá held ég að þeir hafi nóga orku til að takast á við þetta. Ég held samt að það séu svona 65 prósent líkur á því að sigurvegari bikarúrslitahelgarinnar komi úr þessum fyrri undanúrslitaleik á milli Hauka og Vals,“ segir Einar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×