Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Sviss 20-19 | Fyrsti sigurinn kominn í hús

Ingvi Þór Sæmundsson á Ásvöllum skrifar
Stelpurnar verða að þjappa sér saman í dag.
Stelpurnar verða að þjappa sér saman í dag. vísir/ernir
Ísland fékk sín fyrstu stig í undankeppni EM 2016 í handbolta þegar liðið lagði Sviss að velli, 20-19, á Ásvöllum í dag.

Með sigrinum lyfti íslenska liðið sér upp fyrir það svissneska í 3. sæti riðilsins þegar tveimur umferðum er ólokið.

Sigurinn í dag var naumur, og mun naumari en hann hefði átt að vera því íslenska liðið klúðraði ótal dauðafærum sem hefði reynst dýrt gegn betra liði en Sviss.

Varnarleikurinn var þó lengst af til mikillar fyrirmyndar og þá átti Florentina Stanciu nær fullkominn leik í markinu og varði 25 skot, eða 57% þeirra skota sem hún fékk á sig. Ótrúleg frammistaða hjá þessum magnaða markverði sem er því miður að leika sína síðustu landsleiki.

Thea Imani Sturludóttir og Ramune Pekarskyte voru markahæstar í íslenska liðinu með þrjú mörk hvor en sú síðarnefnda skoraði sigurmark Íslands þegar um hálf mínúta var eftir af leiknum.

Íslenska liðið byrjaði leikinn illa þar sem gamlir draugar létu á sér kræla. Vörnin var ágæt og Florentina frábær í markinu en sóknarleikurinn var slakur.

Sviss spilar framliggjandi og mjög grimma vörn sem íslenska liðið átti í miklum vandræðum með að leysa framan af. Ísland tapaði fjórum boltum á fyrstu átta mínútum leiksins og fjögur af fyrstu fimm mörkum Sviss komu eftir hraðaupphlaup.

Sóknarleikur íslenska liðsins var stirður en það er ekki þar með sagt að liðið hafi ekki skapað sér færi. Stangarnir voru leiðinlega oft fyrir og þá varði Manuela Brütsch mjög vel í svissneska markinu framan af leik.

Íslenska sóknin breyttist til batnaðar með innkomu Theu Imani um miðjan fyrri hálfleik. Fylkiskonan unga kom með kraft inn í íslenska sóknarleikinn og átti auðvelt með að fara framhjá varnarmönnum Sviss og opna þannig annað hvort fyrir sig eða samherja sína.

Thea skoraði tvö mörk í fyrri hálfleik og fiskaði tvö vítaköst og átti hvað stærstan þátt í góðum endaspretti íslenska liðsins ásamt Florentinu í markinu.

Ísland vann síðustu 12 mínútur fyrri hálfleiks 4-1 og leiddi í hálfleik, 10-9.

Sólveig Lára Kjernestæd skoraði fyrsta mark seinni hálfleiks en Sviss svaraði með þremur mörkum í röð og náði forystunni, 11-12.

Íslenska liðið hertist við þetta mótlæti og gerði fjögur mörk í röð og náði þriggja marka forystu, 15-12. En gleðin var skammvinn og Sviss jafnaði metin með þremur mörkum í röð.

Þá tók Ágúst Jóhannsson, þjálfari liðsins, leikhlé og að því loknu komu tvö íslensk mörk í röð, frá Steinunni Hansdóttur og Ramune sem skoraði öll þrjú mörk sín á síðustu 18 mínútum leiksins.

Íslenska liðið nýtti hins vegar ekki tækifærin sem gáfust til að stinga af og gestirnir frá Sviss voru aldrei langt undan.

Íslenska vörnin var rosaleg á lokakaflanum og Florentina hélt sínu striki en sóknin var áfram vandamálið. Íslensku stelpurnar fóru illa með færin og töpuðu boltanum fjórum sinnum á síðustu fimm mínútum leiksins.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir kom Íslandi í 19-17 með marki úr vítakasti en tveir tapaðir boltar í röð buðu Sviss upp á að jafna metin sem og gestirnir gerðu.

Lisa Frey jafnar metin í 19-19 af vítalínunni þegar rúm hálf mínúta var eftir. Ágúst tók strax leikhlé og fljótlega að því loknu opnaðist fyrir Ramune sem skoraði 20. mark íslenska liðsins.

Sviss hafði góðan tíma til að jafna metin en íslenska vörnin stóð sína plikt og tryggði að Ísland fengi tvö stig út úr leiknum en ekki eitt.

Thea og Ramune voru sem áður sagði markahæstar í íslenska liðinu með þrjú mörk en sex leikmenn skoruðu tvö mörk. Þeirra á meðal Sunna Jónsdóttir sem átti einnig frábæran leik í vörninni en hún hefur verið besti leikmaður Íslands í undankeppninni ásamt Florentinu.

Íslensku stelpurnar eiga eftir að leika tvo leiki í undankeppninni; gegn Frakklandi á heimavelli og Þýskalandi ytra. Leikirnir fara fram í byrjun júní.

Ágúst: Hefðum átt að vinna með tíu mörkum

Ágúst Jóhannsson, þjálfari Íslands, sagði að sigur íslenska liðsins á því svissneska í dag hefði átt að vera miklu öruggari en raun bar vitni.

Ísland vann leikinn með einu marki, 20-19, en skelfileg nýting á dauðafærum var nálægt því að kosta liðið sigurinn.

"Varnarleikurinn var góður stóran hluta leiksins og svo var Flora algjörlega frábær. Það skilaði sigrinum en við hefðum getað gert út um leikinn miklu fyrr þar sem við fórum gríðarlega mikið af dauðafærum," sagði Ágúst.

"Við átt að vera löngu búnar að klára leikinn. Þetta voru algjör dauðafæri sem við klúðruðum. Þetta var hættulega tæpt en við kláruðum leikinn og ég er gríðarlega ánægður með það."

Þrátt fyrir að íslenska liðið hafi aðeins skorað 20 mörk í leiknum var Ágúst ánægður með sóknarleikinn.

"Sóknarleikurinn var mjög góður fyrir utan smá stress undir lokin. Við keyrðum líka upp tempóið um miðbik fyrri hálfleiks þegar við fórum í 5+1 vörn.

"Við áttum að vinna þennan leik með 10 mörkum miðað við hvernig við opnuðum þær," sagði Ágúst sem hrósaði Florentinu Stanciu fyrir hennar frammistöðu en markvörðurinn frábæri varði 25 skot í leiknum.

"Flora var frábær eins og vörnin stóran hluta af leiknum. Og baráttan og vinnusemin í liðinu var til fyrirmyndar. Við erum ánægð með að hafa náð í sigur."

Karen: Þetta var ljótur handboltaleikur

Karen Knútsdóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins, var mátulega sátt eftir sigurinn á Sviss í dag.

"Við vorum bara að halda smá spennu í þessu," sagði Karen í leikslok og hló.

"Ég hélt að við værum að klúðra þessu í lokin en þetta hafðist. Eitt mark og við erum í 3. sæti. En þetta var ljótur handboltaleikur.

"Þetta lítur verr út þegar við klúðrum svona mörgum dauðafærum. Ég veit ekki hversu mörg skot fóru í stöng og slá en ef þau hefðu farið inn liti þetta allt öðruvísi út," sagði Karen sem hrósaði Theu Imani Sturludóttir fyrir hennar innkomu.

"Þetta var stirt í byrjun og ég held að spennustigið hafi verið svolítið hátt. Við ætluðum að gera svo mikið og töpuðum nokkrum boltum.

"En Thea kom með aukinn kraft og aðra vídd inn í leikinn og það hjálpaði okkur. Flora var líka frábær og vann þetta eiginlega fyrir okkur. Hún hélt okkur á floti."

Ísland á tvo leiki eftir í undankeppninni, gegn Frökkum heima og Þýskalandi úti. En hvað ætlar liðið að gera í þessum tveimur leikjum sem eftir eru?

"Ég held að við þurfum að fá stig til að komast áfram. Frakkarnir eru búnir að tryggja sig inn á mótið og ég veit að franska deildin klárast þarna nokkrum dögum áður. Ég vona að þær mæti kærulausar í leikinn," sagði Karen sem leikur einmitt með Nice í Frakklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×