Handbolti

Guðmundur ekki sáttur: Flensburg vill ekki að leikmenn þess spili með landsliðum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur og Ljubomir Vranjes, þjálfari Flensburg.
Guðmundur og Ljubomir Vranjes, þjálfari Flensburg. vísir/getty
Eins og fram kom á Vísi í gær neyddist Guðmundur Guðmundsson til að aflýsa tveimur æfingum danska landsliðsins fyrir vináttulandsleikinn gegn Þýskalandi á föstudaginn.

Fimm danskir landsliðsmenn leika með þýska úrvalsdeildarliðinu Flensburg sem neitar að sleppa þeim fyrir 31. mars.

Þetta setur danska landsliðið í klípu en Flensburg er eina þýska liðið sem neitar að sleppa leikmönnunum sínum og lét auk þess ekki vita af því fyrr en á fimmtudaginn.

Guðmundur er eðlilega ósáttur við þessa framkomu Flensburg og segir að félagið vilji ekki að leikmenn þess spili sem landsliðum sínum.

„Að sjálfsögðu er ég vonsvikinn,“ sagði Guðmundur í samtali við TV2 í gær.

„Við heyrðum ekkert frá Flensburg fyrr en í fyrradag. Mér finnst þetta mjög undarlegt.

„Flensburg á sér langa sögu af því að vilja ekki að leikmenn liðsins spili með landsliðum sínum. Leikmenn á borð við Holger Glandorf, Michael Knudsen og Thomas Mogensen hafa allir lagt landsliðsskóna á hilluna.“

Guðmundur gefur lítið fyrir það að félagsliðin vilji vernda sína leikmenn sem þau eru með á samning.

„Það eru undarleg rök. Án landsliðanna væri enginn handbolti og enginn möguleiki á að markaðsetja íþróttina,“ sagði Guðmundur.

„Við höfum alltaf passað vel upp á leikmennina okkar. Við ofgerum þeim ekki, pössum upp á að þeir fái nógu mikla hvíld og hlustum á þá ef þeir segjast vera þreyttir.“

Sjá einnig: Þetta er eitt heitasta starfið í Danmörku

Eins og áður sagði mæta Danir Evrópumeisturum Þjóðverja í Köln 1. apríl. Leikurinn er liður í undirbúningi fyrir forkeppni Ólympíuleikana.

Danir eru með Króatíu, Noregi og Barein í riðli en hann verður leikinn í Herning í í Danmörku 8.-10. apríl næstkomandi. Tvö lið fara upp úr riðlinum og til Ríó.


Tengdar fréttir

Ljubomir Vranjes hafnaði HSÍ

Leitin að landsliðsþjálfara Íslands í handknattleik stendur enn yfir. Svíinn Ljubomir Vranjes gaf frá sér möguleikann á að taka við liðinu samkvæmt heimildum. Tíminn tifar viðurkennir formaður HSÍ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×