Handbolti

Aron: Vonbrigði ef við vinnum ekki Meistaradeildina

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Aron hefur skorað 50 mörk í Meistaradeildinni í vetur.
Aron hefur skorað 50 mörk í Meistaradeildinni í vetur. vísir/epa
Aron Pálmarsson, leikmaður Veszprém, segir að allt annað en sigur í Meistaradeild Evrópu nú um helgina yrðu vonbrigði fyrir hann.

Ungversku meistararnir mæta Kiel í undanúrslitum Final Four helgarinnar í Meistaradeildinni sem fer að venju fram í Lanxess Arena í Köln.

Aron þekkir vel til hjá Kiel en hann lék með liðinu frá 2009-2015 og varð tvívegis Evrópumeistari með því. Í ár er hann hins vegar í þeirri stöðu að þurfa að vinna Kiel til að komast í úrslitaleikinn á sunnudaginn.

„Þetta verður sjötta Final Four helgin mín. Þessi viðburður verður alltaf betri og betri og er alltaf að þróast. Þetta var frábært í fyrra og verður pottþétt stórkostlegt í ár,“ sagði Aron sem hefur skorað 50 mörk í Meistaradeildinni í ár. Hann hefur mikla trú á Veszprém-liðinu.

„Við eigum góða möguleika því við erum með frábært lið sem hefur færst nær sigri í keppninni undanfarin ár. Við viljum vinna Meistaradeildina í ár, allt annað yrðu vonbrigði fyrir mig,“ bætti landsliðsmaðurinn við.

Leikur Veszprém og Kiel verður sýndur í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 HD en allir fjórir leikirnir í Final Four verða sýndir beint á Sportstöðvunum um helgina.

Ísland á nokkra fulltrúa í Köln; Aron, Alfreð Gíslason, sem þjálfar Kiel, Róbert Gunnarsson, sem leikur með Paris Saint-Germain, og Anton Gylfa Pálsson og Jónas Elíasson sem dæma leikinn um 3. sætið á sunnudaginn.

Dagskrá helgarinnar:

Laugardagur 28. maí:

Klukkan 13:15: Kielce - PSG                       Sport 2

Klukkan 16:00: Kiel - Veszprém                  Sport

Sunnudagur 29. maí:

Klukkan 13:15: Leikurinn um 3. sætið         Sport 2

Klukkan 16:00: Úrslitaleikurinn                   Sport 2




Fleiri fréttir

Sjá meira


×